Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 18:24:05 (188)

1997-10-08 18:24:05# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[18:24]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara ítreka að það er ekkert öðruvísi nú en á undanförnum árum er varðar samskipti sveitarfélaganna. Við munum að sjálfsögðu halda áfram góðum samskiptum við þau.

Hv. þingmaður er með plagg sem er lagt fram af sveitarfélögunum. Við eigum líka samsvarandi plögg frá ríkinu og ég get nefnt það t.d. að ríkið hefur tekið yfir vinnumiðlanir. Það sparar sveitarfélögunum um 100 milljónir. Rætt er um að ríkið taki yfir stofnkostnað og viðhald sjúkrastofnana, 100 milljónir. Tryggingagjald lækkar á næstu árum hjá sveitarfélögunum um 215 milljónir, niðurfelling hlutabréfafrádráttar á næstu árum upp á 230 milljónir og svona má áfram telja. Þannig að þetta eru auðvitað viðræður sem fara fram þar sem menn setja fram hugmyndir sínar. Það plagg sem hv. þingmaður er með er slíkt plagg og það hefur verið lagt fram á slíkum fundi.

Má ég svo að lokum til viðbótar segja, vegna umkvörtunar sveitarfélaganna sem vilja ekki fara að lögum varðandi staðgreiðslu skatta, að ríkið greip til þess ráðs að taka félagslegu aðstoðina sem sveitarfélögin veita út úr skerðingunum varðandi almannatryggingabæturnar. Með öðrum orðum, allar tekjur koma með einhverjum hætti til skerðingar þegar fólk fær tryggingabætur frá almannatryggingunum en félagslega aðstoðin gerir það ekki. Hins vegar fer með félagslegu aðstoðina eins og húsaleigubætur og allar aðrar bætur nema bætur skattkerfisins að þær eru að sjálfsögðu skattskyldar. Og þegar fólk hefur lágar tekjur eins og því miður sumir hafa, jafnvel tekjur undir skattleysismörkum, þá fer hver ein og einasta króna og allt upp í 80 þúsund til sveitarfélaganna, einfaldlega vegna þess að sveitarfélögin fá útsvar af öllum tekjum en ríkið einungis tekjuskatt af tekjum yfir 60 þúsundum. Það þýðir að sveitarfélögin fá helmingi meira nettó í sinn hlut úr staðgreiðslunni heldur en ríkið. Þetta verða menn að sjálfsögðu að hafa í huga.