Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 18:27:43 (190)

1997-10-08 18:27:43# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[18:27]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og kemur fram í fjárlagafrv. er raunaukning til heilbrigðis- og tryggingamála sem kemur fram í ýmsum liðum, í hækkun almannatryggingabóta, til aldraðra, til heilsugæslunnar og ýmsum nýjungum í sjúkrahúsmálum.

Varðandi þá fyrirspurn sem hv. þingmaður lagði fram um hvernig við ætlum að ná fram sparnaði í lyfjum þá kemur fram í fjárlagafrv. að á þessu ári eru áætlaðir 3,6 milljarðar til lyfjamála og á næsta ári 3,9 milljarðar. Sem sagt 7% hækkun milli ára. Ef ekkert verður að gert hækkar þessi flokkur um 11%. En til að sporna við meiri hækkun verður farið í útboð á lyfjum sem við byrjuðum á með mjög góðum árangri á þessu ári. Við höldum því áfram og förum í svokallaðan samhliða innflutning sem er líka nýjung og við getum náð verulegum sparnaði þar. Þetta er það tvennt sem gefur okkur mest. Þarna ætlum við sem sé að ná þessum 300 milljónum til að sporna við meiri hækkun en 7% á milli ára. Síðan vinnum við að endurskoðun í ráðuneytinu sem ekki er langt komin en við erum að fylgjast með breytingum sem hafa orðið í Svíþjóð varðandi útgjöld til lyfjamála. Í grófum dráttum er breytingin hjá Svíum þannig að þeir sem þurfa mikið að nota lyf borga tiltölulega lítið en þeir sem þurfa sjaldan að nota lyf, eða t.d. einu sinni á ári, borga tiltölulega meira. Eins og ég segi er þetta stutt á veg komið en við fylgjumst með framkvæmdinni í Svíþjóð.

Og þá tannlækningarnar. Við höfum tölvuvætt Tryggingastofnun mjög vel varðandi tannlæknadeildina. Af vísustu mönnum þar er talið að með þeirri tækni megi auka eftirlit og draga úr tvíverknaði og það er það sem við ætlum fyrst og fremst að gera.