Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 18:35:59 (194)

1997-10-08 18:35:59# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[18:35]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ætli nokkurt þingmál, sem lagt er fyrir Alþingi Íslendinga, byggi eins mikið á trúverðugleika og frv. til fjárlaga? Frv. til fjárlaga byggir nefnilega fyrst og fremst á trúverðugleika þess ráðherra sem frv. leggur fram og þeirrar ríkisstjórnar sem hann starfar í. Þess vegna er með eindæmum að umræður á Alþingi skuli standa í 2--3 daga um fjárlagafrv. en í 2--3 klukkutíma um ríkisreikning fyrir viðkomandi fjárlagaár þar sem kemur einmitt í ljós að hve miklu leyti trúverðugleiki fjmrh. og viðkomandi ríkisstjórnar er raunhæfur þannig að með orðalagi hæstv. fjmrh. hingað til sem hér eftir byggist fjárlagafrv. hans fyrst og fremst á trúverðugleika hans sem fjmrh.

Svo vill til að á borðum okkar þingmanna liggur vitni um trúverðugleika hæstv. fjmrh., það er frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1997. Þar kemur fram að mitt í allri uppsveiflunni, öllu því góðæri sem hæstv. ríkisstjórn talar um, gerir hún ráð fyrir því að skila fjárlögum fyrir árið 1997 með rúmlega eins milljarðs kr. halla. Í góðærinu hafa tekjurnar aukist um 4,7 milljarða kr. Það ætti að hafa skilað ríkisstjórninni nokkuð áleiðis til að geta staðið við áform sín en hún hefur aukið útgjöldin um 6,9 milljarða króna þannig að trúverðugleikinn er ekki meiri en svo að í mestri uppsveiflu Íslandssögunnar síðustu 15 ár sem orðið hefur á árinu í ár skilar hæstv. ríkisstjórn halla í rekstri ríkisins.

Verulegur hluti þessara auknu gjalda eru ekki óhjákvæmileg útgjöld heldur ákvarðanir sem hæstv. ríkisstjórn hefur tekið. Þær ákvarðanir eru þess eðlis að þær sýna ekki að hæstv. ríkisstjórn beri mikla virðingu fyrir þeim ákvörðunum sem teknar eru að undirlagi hennar á Alþingi um gerð fjárlaga. Utanrrn., þetta litla ráðuneyti, fer fram á aukafjárheimildir upp á 182 millj. kr. og það er ekki svo að utanrrn. fari á fjörurnar með beiðnina vegna einhverra verka sem utanrrn. hyggst láta vinna heldur er beðið um að fjárheimildirnar séu samþykktar til að inna greiðslur af hendi sem hafa að verulegu leyti verið þegar greiddar eða a.m.k. verið skuldbundið að greiða. Látum það vera þó svo að hæstv. utanrrn. haldi þannig á málum. Vissulega væri ástæða til þess að ræða um mikla útþenslu þess ráðuneytis. Það virðist ekki vera að menn ætli þar að láta góðærið fara fram hjá sér. En annað vekur athygli mína og vil ég nú hafa að því nokkurn formála.

Eins og hv. alþingismenn vita var það ágæta hús Höfði endurbyggt á árum hæstv. forsrh. sem borgarstjóra í Reykjavík úr hreysi í slot. Sagt er að um þá ákvörðun hafi borgarstjórn aldrei formlega fjallað, þ.e. hún tók aldrei ákvörðunina um fjármögnun á þeirri miklu endurbyggingu heldur segir sagan að allur kostnaðurinn hafi verið færður undir liðinn Húsverðir o.fl. Þannig hafi Höfði verið endurbyggður undir hattinum Húsverðir o.fl.

Nú er fyrrv. borgarstjóri sestur í sæti hæstv. forsrh. og endurbyggir Stjórnarráðshúsið nákvæmlega eins. Að vísu verður það ekki fært undir liðinn Húsverðir o.fl. eða Bílstjórar o.fl. heldur á öll endurbyggingin sér stað á fjáraukalögum. Með öðrum orðum tekur hæstv. forsrh. ákvörðun um að endurbyggja húsið fyrir 85 millj. kr. án þess að leita fjárheimilda fyrir þeirri endurbyggingu fyrr en eftir á þannig að hæstv. forsrh. er að reisa sér annan minnisvarða í stjórnsýslunni sem er ekki minna virði en Höfði þó að ekki sé fært undir Húsverðir o.fl. Þetta sýnir, virðulegi forseti, að sumir hæstv. ráðherrar umgangast fjárlögin ekki af þeirri virðingu sem þeim ber og ég trúi því ekki að hæstv. fjmrh. telji þetta vera góða latínu og ég trúi því ekki heldur að aðrir ráðherrar eins og hæstv. heilbrrh., sem á í miklum niðurskurðarerfiðleikum, telji að þessir stjórnunarhættir séu til fyrirmyndar, þ.e. að menn ákveði endurbyggingu á eigin skrifstofuhúsnæði upp á yfir 80 millj. kr. með ákvörðunum í fjáraukalögum. Ég trúi ekki, virðulegi forseti, að aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni telji þessa ákvörðun til fyrirmyndar.

Í aðfaraorðum frv. til fjárlaga fjallar hæstv. fjmrh., eða svo verður á það að líta, m.a. nokkuð um skattamál. Þar segir hann m.a. að í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins hafi tekjuskattskerfið verið tekið til endurskoðunar til þess að draga úr jaðaráhrifum. Í textanum í framhaldinu lætur hæstv. fjmrh. í það skína að þessi vinna hafi skilað eða muni skila árangri sem muni sjá dagsins ljós áður en langt um líður.

Nú er öllum kunnugt að þessi jaðarskattanefnd hefur verið lögð niður og því leikur mér forvitni á að vita í tilefni af þessari umfjöllun hér hvort hæstv. fjmrh. muni þá hafa samráð við þá aðila sem skipuðu fulltrúa í jaðarskattanefndina, þ.e. verkalýðshreyfinguna, eða stjórnarandstöðuna um endurskoðun á jaðarskattamálum sem verið er að tala um. Ég spyr sérstaklega vegna þess að allir stjórnarandstöðuflokkarnir hafa lýst þeirri skoðun sinni að nauðsynlegt sé að draga úr jaðarskattsáhrifum tekjuskatts og ættu því að geta verið samverkamenn hæstv. fjmrh. í skoðun á því máli þó að ekki sé þar með sagt að þeir verði fyrir fram sammála þeirri niðurstöðu sem hann kemst að persónulega en líklegt er að þeir kæmu þá með tillögur sínar sem ég held að hæstv. fjmrh. hefði gott af því að skoða.

Í aðfaraorðum frv. er fjallað nokkuð um skattkerfið í heild og í því sambandi vil ég gjarnan geta þess að ég held að tímabært sé að gerð verði athugun hér á Íslandi hver sé heildarskattbyrði hinna ýmsu tekjuhópa. Þá er ég ekki að tala um skattbyrði í tekjuskatti því að upplýsingar um það liggja fyrir heldur heildarskattbyrði hinna ýmsu tekjuhópa, þ.e. hvað varðar virðisaukaskatt, vörugjald, fjármagnstekjuskatt og aðra þá skatta sem eru lagðir á þegna þessa lands því að ég held að mjög forvitnilegt væri að fá að sjá hvort það sé raunverulega svo að hátekjuhóparnir beri sinn réttmæta hlut af heildarskattbyrðinni eða hvort samanburðurinn sem gerður er á tekjuskattskerfinu einu saman gefur villandi niðurstöðu um heildarskattbyrði hinna einstöku tekjuhópa sem þarf að liggja fyrir.

[18:45]

Herra forseti. Ég mun beita mér fyrir því á þessu þingi að flytja þingmál þar sem gert er ráð fyrir því að slík úttekt á heildarskattbyrði einstakra tekjuhópa fari fram. Slík úttekt fór fram fyrir að mig minnir 20 árum síðan við frekar frumstæðar aðstæður. Ég held að hún hafi aldrei verið gerð opinber en var nýtt í fjmrn. á þeim tíma. Við höfum á þessum 20 árum fengið miklu betri upplýsingar sem gera okkur fært að gera þá athugun gleggri og sannari heldur en þessi 20 ára gamla athugun var og ég tel að það sé meira en tímabært að skoða hvernig heildarskattbyrðin í landinu skiptist annars vegar á þá sem bera há laun úr býtum og hins vegar láglaunafólkið.

Í tilefni af orðum hæstv. fjmrh. í aðfaraorðum frv. til fjárlaga þar sem hann lýsir því yfir að hann hafi ákveðið að skipa nefnd til að meta stöðu íslenska skattkerfisins og reifa hugmyndir um hugsanlegar breytingar, þá vil ég taka það fram að ég tel að þetta sé svo sannarlega tímabært og eitt af því sem beri að skoða í því sambandi sé að venda okkar kvæði í kross í skattamálum, leggja minni áherslu á skatta eins og tekjuskatt sem a.m.k. eins og hann er úr garði gerður í dag virkar vinnuletjandi, en fara í staðinn inn á ný skattform svo sem mengunarskatta, umhverfisskatta og auðlindagjöld sem ekki hafa neikvæð áhrif á vinnuvilja og sparnaðarvilja landsmanna eins og núverandi skattkerfi tvímælalaust gerir. Þetta er mjög stórt viðfangsefni í skattamálum sem verður að takast á við og ég tel að rétt sé að taka ákvörðun um það nú í vetur að gera hvort tveggja, skoða hver raunveruleg skattdreifing er milli hinna einstöku tekjuhópa þegar litið er á heildaráhrif skattkerfisins og hins vegar að hefja nú þegar athugun á því að draga úr þeim sköttum sem hafa neikvæð áhrif á framleiðsluþætti, þ.e. vinnuvilja og sparnað, en taka upp nýtt skattkerfí í staðinn sem ekki raskar vinnuvilja eða sparnaðarvilja landsmanna.

Það er ýmislegt athyglisvert að sjá í frv. til fjárlaga, m.a. það að hæstv. fjmrh. hefur orð á því að það sé mjög auðvelt að glutra þeim árangri niður sem náðst hefur m.a. í ríkisfjármálum að nokkru leyti sakir fórna fjölmargra Íslendinga á erfiðleikaárum. Hann segir á bls. 9 í frv. að traust staða í ríkisfjármálum sem miði að því að greiða niður skuldir á næstu árum sé forsenda þess að áfram ríki góðæri í íslensku efnahagslífi. En hann kemst að undarlegri niðurstöðu ef flett er nokkrum blaðsíðum aftar því að þá segir svo í aðfaraorðum hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt því verður afkoman í járnum næstu ár, miðað við nýja uppgjörið og rekstrargrunn,`` o.s.frv.

Þannig að þó að hann leggi á bls. 9 mjög mikla áherslu á að traust staða í ríkisfjármálum, sem miði að því að greiða niður skuldir á næstu árum, sé forsenda þess að áfram ríki góðæri í íslensku efnahagslífi, er spásögn hans engu að síður um næstu ár, þessi miklu góðærisár, að afkoma ríkissjóðs verði á þeim árum í járnum og vildi ég þá minna á ummæli sem hæstv. ráðherra viðhafði á erfiðleikaárunum þegar við sátum saman í ríkisstjórn. Þá sagði hann m.a. að það væri ekki hægt að gagnrýna að reka ríkissjóð með halla á árum atvinnuerfiðleika og kreppu, en það væri algjör forsenda fyrir því að sú stefna gengi upp að þegar birti til í efnahagslífinu, þá drægi ríkissjóður saman seglin, drægi úr ríkisumsvifum og skilaði verulegum rekstrarafgangi. En það er hæstv. fjmrh. ekki að gera núna í miðju góðærinu. Hann er að reka ríkissjóð með miklum halla og hann gerir ráð fyrir því bókstaflega að svo miklu leyti sem hann fær við þá þróun ráðið að það megi teljast gott ef í áframhaldandi góðæri á næstu árum megi reka ríkissjóð í járnum. Hann segir þetta sjálfur þannig að hann treystir sér auðsjáanlega ekki til þess að standa við þau stóru orð sem hann viðhafði fyrir nokkrum árum síðan um hvert ætti að vera hlutverk fjmrh. á Íslandi í góðærinu.

Virðulegi forseti. Sá tími sem ég hef til að ræða þessi mál er nú að líða, en þó er eitt atriði sem mig langaði til þess að benda á til viðbótar við það sem fram er komið hér og vildi gjarnan að hæstv. forseti gerði ráðstafanir til þess að formaður fjárln. yrði viðstaddur því að ég hef ákveðna spurningu sem ég vil beina til hans úr ræðustól og vænti ég þess að klukkan verði þá stöðvuð á meðan ég bíð eða er ekki svo, virðulegi forseti?

(Forseti (StB): Forseti hefur gert ráðstafanir til þess að fá hv. formann fjárln., Jón Kristjánsson, í salinn og klukkan gengur ekki eins og hv. þm. getur séð.)

Þá er hv. formaður fjárln. í salinn genginn og ég vil þakka honum fyrir það því að ég hef eina spurningu sem ég vildi beina til hans og vænti þess að hann geti e.t.v. svarað því í andsvari hér á eftir því að hún er ekki flókin.

Alþingi setti á liðnum þingvetri ný lög um fjárreiður ríkisins sem gera ráð fyrir því að það skuli vera meginregla að ráðherrar og ríkisstjórn, þ.e. framkvæmdarvaldið, fái samþykki Alþingis fyrir þeim greiðslum úr ríkissjóði sem eiga að verða á fjárlagaárinu að svo miklu leyti sem unnt er að leita slíkra heimilda fyrir fram. Þetta þýðir að afnema á þá tilhneigingu margra ríkisstjórna í gegnum árin að búa til aukafjárlög í kringum greiðsluheimildir. Samt sem áður heldur hæstv. fjmrh. áfram uppteknum hætti um þau efni eins og kemur fram á bls. 74 og 75 í fjárlagafrv. en þar er fjallað um kaup og leigu fasteigna. Þar er m.a. heimild til hans um að kaupa fasteignir í nágrenni Arnarhvols í Reykjavík fyrir Stjórnarráðið og taka til þess nauðsynleg lán. Hvað er nágrenni Arnarhvols? Nær það kannski til þeirra sem kölluð hafa verið nágrannasveitarfélög Reykjavíkur líka? Hvaða húsnæði á að kaupa þar og hversu mikið og hvar á að taka lán og hversu mikið?

Það er einnig gert ráð fyrir því að ráðherra sé heimilt að kaupa húsnæði vegna uppbyggingar heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu og taka til þess nauðsynleg lán. Ætli þyrfti ekki að kaupa svona fjögur hús ef fullnægja ætti húsnæðisþörfinni fyrir nokkur hundruð millj. kr. Og er rétt að veita slíkar opnar heimildir til framkvæmdarvaldsins í fjárlagafrv. eftir að nýju lögin hafa verið samþykkt?

Þá er einnig ákvæði í liðnum Kaup og leiga fasteigna, að kaupa eða leigja húsnæði fyrir aðalskrifstofur ráðuneyta og taka til þess nauðsynleg lán. Með öðrum orðum: Getur hæstv. forsrh. þá haldið áfram í skjóli þessarar heimildar, við uppbyggingu á skrifstofu fyrir sjálfan sig með því að kaupa eða leigja húsnæði einhvers staðar í bænum eftir geðþótta án þess að fá um það frekari heimildir frá Alþingi en þarna er gert ráð fyrir? Ég ætla ekki að lesa upp allar þessar heimildargreinar sem eru hvorki meira né minna en 22 og flestar með þessu orðalagi. Ég ætla að taka fram, virðulegi forseti, að þetta eru gamlir kunningjar, mikið af þessu. (Fjmrh.: Eldgamlir.) Margir eldgamlir, það er alveg rétt. En með breytingunum sem gerðar voru á fjárreiðum ríkisins með lögunum í fyrra var stefnt að því að svona greinar sæjust ekki framar í fjárlagafrv., en nú ganga þær hér allar aftur. Því er það spurning mín til hv. formanns fjárln. sem var með mér í sérnefnd þeirri sem samdi nýjar reglur um hvernig menn skyldu haga sér varðandi fjárreiður ríkisins, hvort ekki megi treysta því að þó að hæstv. fjmrh. hafi glapist til að setja þessar greinar inn í frv. sem frá honum kemur til Alþingis og hafi því ekki tekið mark á þeim niðurstöðum sem Alþingi komst að í fyrra að þessu leyti, að hv. formaður fjárln. sjái til þess að þessar greinar hverfi út úr fjárlagafrv. í meðferð fjárln. og Alþingis?