Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 19:05:13 (200)

1997-10-08 19:05:13# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[19:05]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Í skýringum þegar leitað er eftir fjáraukaheimildum vegna fjáraukalagafrv. 1997 er þess ekki getið hverjir eigi að búa í þeim húsum sem verið er að biðja um aukafjárveitingar til, enda er það ekki það sem ég er að gagnrýna. Ég er ekki að gagnrýna að hæstv. forsrh. Davíð Oddsson eigi að búa um einhverja stund í Stjórnarráðinu. Ég er að gagnrýna að menn taki ákvarðanir eins og þessar í fjáraukalögum án þess að Alþingi fái tækifæri til þess um að fjalla. Það skiptir engu máli hver byggingin er eða hver þar á að búa. Gagnrýnisefni mitt er að menn skuli taka ákvarðanir upp á svona háa fjármuni án þess að Alþingi geti um það fjallað. Og það nær auðvitað ekki nokkurri átt að endurbyggja Stjórnarráðshúsið þar sem skrifstofur forsrh. eru á fjáraukalögum. Það nær ekki nokkurri átt, það er slæm stjórnsýsla. (Gripið fram í: En sendiherrabústaðurinn?)

Hæstv. fjmrh. hafði nokkur orð um afkomu ríkissjóðs. Það er alveg rétt að tekjuöflun ríkisins varð miklu meiri á yfirstandandi ári heldur en menn þorðu að vona. En hæstv. ríkisstjórn hefur aukið útgjöld ríkisins um tæplega 7 milljarða kr. á sama tíma þannig að hún tók ákvörðun um að auka útgjöld ríkissjóðs miklu meira en sem svarar aukningu innheimtra tekna vegna góðærisins.

Það er rétt að við sátum saman, ég og hæstv. ráðherra, á erfiðleikaárum í ríkisstjórn. En þá var það hans skoðun að þegar betur færi að ganga ættu menn að skila afgangi í ríkisrekstrinum og greiða niður erlendar skuldir, en nú segir sami ráðherra að á næstu árum verði ekki fyrirsjáanlegt annað heldur en að ríkissjóður verði rekinn í járnum.