Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 20:03:34 (213)

1997-10-08 20:03:34# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[20:03]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var vegna þess að hv. þm. beindi til mín spurningu um hvað gerast mundi um áramótin. Eins og kom reyndar fram í framsöguræðu minni eru hækkanir til lífeyrisbótaþega frá upphafi þessa árs og til upphafs næsta árs það miklar að gert er ráð fyrir 10--11%, líklega nær 11%, kaupmáttaraukningu þessara bóta. Það þýðir að í upphafi næsta árs er gert ráð fyrir að ellilífeyrisþegar og aðrir bótaþegar fái svipaða hækkun og launþegar fá samkvæmt almennum kjarasamningum þó að það sé ekki skylda samkvæmt lögunum.

Ég vil bæta því við vegna þess að hv. þm. sem er að því er ég best veit enn þá upplýsingafulltrúi Tryggingastofnunar ríkisins, í leyfi, og þekkir þessi mál betur en við og hefur sérstakan áhuga á þeim, þá vil ég að fram komi líka að þær tekjur sem menn geta haft án þess að til skerðingar komi hækka um 5% eða þar um bil samkvæmt frv., eða um meira en sem nemur t.d. hækkun á skattleysismörkum, helmingi meira eða svo sem aftur bætir kjör þessa fólks sem lifir mestan part á bótum.

Það er annars svo, virðulegi forseti, að hlusta hér á fulltrúa jafnaðarmanna, því maður má ekki lengur tala um Þjóðvaka og Alþfl. í þingsal, það er athyglivert að hlusta á formann Alþfl. fara með himinskautum og skammast síðan yfir því að ekki skuli vera stórkostlegur afgangur á fjárlögum íslenska ríkisins og skamma fjmrh. fyrir að hækka útgjöld á þessu ári. En hækkunin er fyrst og fremst fólgin í bótum til almannatryggingakerfisins og til vaxta, þetta eru stærstu liðirnir. Og að hlusta síðan á fótgönguliðið koma hér og heimta sífellt meiri útgjöld. Mér finnst að hv. þm. ætti t.d. að fræða okkur um hvort hún (Forseti hringir.) vill hafa skerðingar og hvernig hún vill beita þeim skerðingum sem þarf að beita í almannatryggingakerfinu.