Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 20:44:57 (221)

1997-10-08 20:44:57# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[20:44]

Ögmundur Jónasson(andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst mjög mikið áhyggjuefni hve blindir menn eru á það sem er að gerast. Menn eru sífellt að tala um blandað kerfi sem við búum við, annars vegar ríkisrekstur og síðan stofnanir sem eru reknar af margvíslegum samtökum. Þá erum við fyrst að tala um stofnanir sem settar voru á fót af hugsjónafólki sem rak þessa starfsemi af hugsjón, alla vega lengi framan af. Þessar stofnanir búa að því enn þá. Það sem við erum hins vegar að ræða um núna í pólitíkinni í dag eru aðrir hlutir. Það er verið að tala um hvort það eigi að fara eftir öðru leiðarljósi við stjórn heilbrigðisþjónustunnar, þ.e. markaðshugsuninni, hagnaðarvoninni. Þetta eru menn að takast á um. Ef hæstv. heilbrrh. gerir sér ekki grein fyrir þeirri umræðu, þeirri pólitísku umræðu sem fram fer ekki bara hér á landi heldur í öllum ríkjum OECD, og hæstv. fjmrh. fylgir mjög stíft eftir, þá finnst mér það mikið áhyggjuefni.