Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 20:46:27 (222)

1997-10-08 20:46:27# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[20:46]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. heilbrrh. talar um að við sjáum ekkert nema svart. Það er ekki rétt. Hún tínir til allt það sem hún hefur getað gert jákvætt. Það er mjög gott. Auðvitað eiga ráðherrar að gera eitthvað gott á góðæristímum. Ég ætlast til þess að hæstv. ráðherra nái einhverjum jákvæðum hlutum fram eins og þessu með biðlistana. En hvað er hæstv. ráðherra að gera um leið? (Gripið fram í.) Hann eykur þjónustugjöldin t.d. á þá sem eru að fara í hjartaaðgerðirnar, á þá sem þurfa að fara í endurhæfingu eftir aðgerðir eins og hún er að nefna. Frá 1. september eru þjónustugjöld aukin á alla þá sem þurfa að fara í sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, talþjálfun, allt þetta fólk sem er heilsulaust og á undir högg að sækja. Það er verið að sækja peninga í vasa þessa fólks. Þetta er fólk sem er ekki aflögufært.

Fyrst hæstv. ráðherra nefnir stefnuna í 21 lið til að efla heilsugæsluna vil ég spyrja um fyrsta liðinn: Hvað líður hinu valfrjálsa stýrikerfi tilvísana sem er fyrsti liðurinn af þessum 21 punkti í sambandi við heilsugæsluna?