Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 21:02:00 (235)

1997-10-08 21:02:00# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[21:02]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Það er liðið á 1. umr. um fjárlagafrv. fyrir árið 1998 og það hefur komið fram nokkuð almenn ánægja hv. þm. með nýja uppsetningu á frv. Hitt hafa ekki allir tekið fram að ríkisfjármálin sjálf eru líka að batna. Vinnubrögð við meðferð ríkisfjármála taka stöðugum framförum og það hefur raunveruleg áhrif á efnahag fólks í landinu. Minni lánsfjárþörf ríkisins leiðir til lægri vaxta. Þetta hefur t.d. komið í ljós undanfarið við lækkandi ávöxtunarkröfu ríkisverðbréfa og húsbréfa sem er vissulega bein kjarabót til mikils hluta landsmanna. Erlend matsfyrirtæki í fjármálum og efnahagsstjórn gefa Íslandi sífellt hærri einkunn fyrir traustan efnahag, fyrir styrka fjármálastjórn, sem aftur leiðir beint til betri kjara á erlendum lánum. Þannig spilar það saman að góður árangur ríkisstjórninnar leiðir beint og óbeint til betri lífskjara í landinu. Við erum með meiri hagvöxt en flestar aðrar þjóðir, lækkandi vexti og skatta, hækkandi tekjur.

Herra forseti. Samkvæmt nýja reikningsforminu á fjárlagafrv. er um hálfs milljarðs tekjuafgangur á ríkissjóði og við hljótum í vinnu þingsins á þessu hausti að kappkosta að halda ríkissjóði réttu megin við strikið og skila tekjuafgangi þegar öllu er til skila haldið og frv. verður að lögum. Frv. sjálft felur hins vegar ekki í sér ýkjamiklar breytingar í tekjum eða gjöldum, hvorki til hækkunar né lækkunar.

Framlög eru aukin að raungildi til þriggja málaflokka, heilbrigðsmála, menntamála og málefna fatlaðra. Þetta er forgangsröðunin og það er vel og þar má segja að séu áherslur ríkisstjórnarflokkanna um þessar mundir. Vissulega vildu menn fara hraðar í að bæta þjónustu á sem flestum sviðum og meðan einhver líður nauð í þjóðfélaginu þá má ekki unna sér hvíldar í viðleitni til að bæta. Fram hefur komið í máli hæstv. fjmrh. við þessa 1. umr. um fjárlögin að bætur til aldraðra fara hækkandi og munu hækka í takti við hækkanir til annarra.

Herra forseti. Að öðru leyti vil ég víkja að byggða- og búsetumálum. Ég tók sérstaklega eftir því í ræðum hv. þm., formanns og varaformanns fjárln., að þeir véku að byggðamálum og búsetuþróun í landinu sem stundum er kölluð búseturöskun. Með fjárlögum er að nokkru leyti hægt að stýra þessu. Aðgerðir í ríkisfjármálum mega ekki ýta undir byggðaröskun. Búsetuskilyrði í landinu öllu þarf að bæta eftir því sem kostur er með löggjöf. Uppbygging nýrra hverfa á höfuðborgarsvæðinu vegna flutnings fólks af landsbyggðinni er kostnaðarsöm. Hyggja þarf að því að í sumum tilvikum er flutningur fólks hingað á suðvesturhorn landsins nánast nauðugur kostur. Kostnaður af þessum sökum er verulegur og uppbygging þjónustunnar af hálfu ríkis og sveitarfélaga sem þessu fylgir er svo mikil að það getur haft bein áhrif á kjör allra landsmanna til hins verra. Hins vegar er með tiltölulega litlum kostnaði hægt að efla vaxtar- og þjónustusvæðin á landsbyggðinni. Vandi byggðanna er oft sá að unga fólkið sem fer þaðan burt vegna menntunar kemur ekki til baka vegna þess að það fær ekki störf heima fyrir þar sem menntunin nýtist þeim eða þjóðinni, því miður.

Byggðastofnun getur sinnt veigamiklu hlutverki í skilgreiningu á vanda og í því að auka og efla atvinnuþróunina og því ber í fjárlögum næsta árs að efla Byggðastofnun til þessara góðu verka. Þegar hriktir í byggðunum hljóta menn að huga alvarlega að því hvað sé til ráða. Á þessu þarf að leita lausna eftir því sem það er á færi löggjafans.

Herra forseti. Fjárlög hvers árs eru afar mikilvæg þjóðinni. Bak við hverja tölu í þeim eru verðmæti og mestu verðmætin að sjálfsögðu fólgin í fólkinu sjálfu. Þar eru óskir, þar eru vonir og þarfir. Því er ekki hægt að líta svo á að fjárlagavinnan sé þurr eða daufleg, öðru nær. Um leið þurfum við að auka umræðuna eins og vissulega hefur borið á í þessari umræðu, umræðuna um tilgang og áherslur í þjóðfélaginu. Það hefur vissulega verið fróðlegt að fylgjast með þeirri umræðu sem nú er senn að enda því að um áherslurnar og tilganginn snýst þetta allt saman, starf okkar að mæla rétt og skipta réttlátlega, að stýra fram til meiri hagsældar öllum landsmönnum til handa.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson minntist á pólitík og siðferði í pólitík. Um þetta snerist málið. Hv. þm. gaf ríkisstjórninni falleinkunn þegar kom að siðferði í pólitík. En þegar kemur að siðferði í stjórnarháttum þá tel ég að ríkisstjórnin sem nú situr fái hærri einkunn en flestar ríkisstjórnir sem setið hafa frá stofnun lýðveldis.