Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 21:26:56 (241)

1997-10-08 21:26:56# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[21:26]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég reyndi að koma að því í minni fyrri ræðu að miðað við núverandi skuldastöðu ríkisins og miðað við núverandi vaxtagreiðslur ríkissjóðs, sé það skynsamleg efnahagsstjórnun að greiða niður skuldir og ná niður þessum vaxtakostnaði til þess að losa um fjármagn m.a. Og ég lýsti þeirri skoðun minni að það fjármagn ætti að nota til þess að renna styrkari stoðum undir velferðarkerfið í framtíðinni. Önnur verkefni eins og utanríkismál, samgöngumál og umhverfismál víkja ekki frá okkur. Það er fjárþörf í þessum málum. Hún víkur ekki frá okkur. En hins vegar þurfum við að létta á okkar skuldum og það er náttúrlega alveg ljóst að við verðum að berjast fyrir því að rýmri fjárhag ríkissjóðs á næstu árum verði beint í það að styrkja og renna stoðum undir velferðarkerfið í landinu.

Og hin verkefnin, þó að hv. 17. þm. Reykv. efist um einhverjar sendiferðir, ég ætla ekki að fara að deila við hann um það, þá víkja þau ekki frá okkur í framtíðinni né önnur sem liggja kannski utan velferðarkerfisins. Þarna er fjárþörf, hún fer ekki en það er grundvallaratriði finnst mér að nota bætta stöðu ríkissjóðs til þess að koma hinum verr settu til aðstoðar.