Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 21:30:39 (243)

1997-10-08 21:30:39# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[21:30]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að það eru aukin framlög til utanríkisþjónustunnar að raungildi, yfir 200 milljónir. En hins vegar er það nú ekki svo að ekki hafi verið aukin framlög til tryggingamála og þeirra málaflokka sem flokkast undir velferðarmál. Þau framlög hafa einnig aukist. Mér er alveg fullljóst að auðvitað mætti betur gera. Hitt er svo annað mál að hafa verið gerðir kjarasamningar á vinnumarkaði til langs tíma, tryggingabætur hafa verið hækkaðar í kjölfar þeirra kjarasamninga og gerðar hafa verið breytingar í skattamálum þó að þær séu vafalaust umdeildar. Allt kostar þetta mikla fjármuni en allt þetta hefur þó gerst án þess að verðbólga fari upp á ný í þjóðfélaginu. Allt hlýtur þetta að koma þeim verr settu til góða en ég ætla ekki að deila um það við hv. 17. þm. Reykv. að auðvitað þyrfti að ná meiri árangri. Ég ber þá von í brjósti að við getum stýrt ríkisfjármálum á þann veg á næstu árum að við höfum meira svigrúm til þess að leggja til þessara málaflokka. Ég lýsi því sem minni skoðun og hef gert það í andsvörum áður að ég tel að aukið svigrúm eigi að nýta til þess að skjóta stoðum undir velferðarkerfið.