Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 21:50:33 (248)

1997-10-08 21:50:33# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[21:50]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Það eru nokkur atriði sem mig langaði til að nefna þegar líða tekur á kvöld og gera má ráð fyrir að styttast fari í umræðunni.

Ég byrja á því að þakka hv. þm. fyrir þátttöku þeirra í umræðunni og jafnframt að segja frá því þótt ekki hafi allir viðstaddir vitað af því að hef ég annað slagið í dag og reyndar í gær reynt að svara nokkrum fyrirspurnum sem hefur verið beint til mín og get þess vegna stytt mál mitt. Það eru þó nokkur atriði sem ég tel mér skylt að nefna nú þegar líður að lokum umræðunnar.

Í fyrsta lagi gat hv. þm. Kristín Halldórsdóttir um það í umræðunni í gær að það skyti nokkuð skökku við í hafnaáætlun að þar er skuld upp á á þriðja hundrað millj. sem hefur ekki komið fram á greiðslugrunni fjárlaga og kæmi ekki heldur fram á rekstrargrunninum vegna þess að það væru útgjöld sem hefði verið stofnað til fyrr og væri ekki greidd fyrr en síðar. Þetta er hárrétt. Þeta er nákvæmlega það sem gerist þegar við erum að færa okkur á milli aðferða í þessum málum en ég vil taka fram að að sjálfsögðu hefur verið gert ráð fyrir þessu í ríkisreikningi nú þegar. Þessir fjármunir eru komnir þar fram og greiðslur munu koma fram í sjóðsstreymi þegar greiddar verða þannig að ekki er nokkur hætta á því að ekki verði hægt fyrir fjárln. í framtíðinni að fylgjast með þessu. Til viðbótar eins og hv. þm. reyndar nefndi sjálfur er þessa getið á viðskiptahreyfingum í sjálfu fjárlagafrv. sem ætti að verða enn þá skýrara en var á gamla grunninum.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson ræddi um nokkur mál og margt af því sem hann sagði fannst mér vera afar áhugavert og eiga fullt erindi við 1. umr., almenn atriði. Hann spurði sig og aðra þeirrar spurningar hvernig á því stæði að við næðum ekki atvinnuleysisskráningunni meira niður miðað við atvinnuástandið eins og það er í landinu og eins og hv. þm. veit vantar vinnuafl hér á landi í vissum greinum. Þar á meðal veit ég að í kjördæmi hans er mikill skortur á vinnuafli og þar hefur hópur útlendinga fengið störf þrátt fyrir að atvinnuleysi sé skráð hér á landi talsvert meira en var t.d. fyrir 10 árum. Auðvitað þarf að athuga þetta og ég tek undir það. En ég ætla ekki heldur að gerast dómari um það hvers vegna þetta er svona en ég get bent á, eins og hefur reyndar komið fram í umræðunni, að atvinnuþátttaka hefur stóraukist. Ef við hættum að tala um atvinnuleysi en tölum um atvinnuþátttöku eins og gert er t.d. í Danmörku býst ég við að atvinnuþátttaka í dag sé meiri en hún var fyrir 10 árum. Af hverju? Það er vegna þess að fleiri konur hafa komið út á vinnumarkaðinn og eru starfandi í dag en þá en aftur á móti tíðkast núna það sem ekki tíðkaðist þá að þeir sem voru t.d. í hlutastörfum, annaðhvort að degi eða þá í hluta af ári, láta nú skrá sig en gerðu það ekki áður. Þetta er ein skýringin.

Önnur skýring, ekki bara hér á landi heldur er líka skýring sem er gefin í Evrópu, er sú að þegar fyrirtækin neyddust til þess að hagræða í harðnandi samkeppni gerðist það að ýmsir sem voru í störfum hjá fyrirtækjunum en voru kannski ekki fullkomlega bestu starfskraftarnir af ýmsum ástæðum var sagt upp og ekki ráðnir aftur. Þetta fólk hefur farið á atvinnuleysisskrá. Ef það hefur átt kost á því hefur það farið á skrá hjá almannatryggingum vegna örorkubóta eða leitað sér félagslegrar aðstoðar hjá sveitarfélögunum. Þetta er alþjóðlegt vandamál og þótt minna beri á því hér á landi en annars staðar skulum við viðurkenna að þetta er einn þátturinn í þeirri breytingu sem hefur orðið á þjóðfélagsgerð okkar en þetta mál er mjög til umræðu erlendis þegar menn ræða um það hvað hægt sé að koma atvinnuleysinu langt niður. Ég ætla að benda hv. þingmönnum á ágætis lesefni um þetta mál sem er í síðustu Fjármálatíðindum þar sem fjallað er fræðilega einmitt um þetta vandamál.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson ræddi einnig um ríkisvaldið, um hið opinbera, um ríkið sem þunglamalegt fyrirbæri og sagði að það þyrfti að draga úr hlut ríkissjóðs og ég segi: Mæli hann manna heilastur. Það er líka einkennilegt hér á landi hve lítið fer fyrir umræðunni um ríkið og breytt hlutverk ríkisins. Það er alls staðar annars staðar og það vita allir þeir sem fylgjast með umræðunni sem er að eiga sér stað, og menn ræða það hvort það sé náttúrulögmál að umfang og umsvif ríkisins hljóti að vaxa ár frá ári þrátt fyrir alla einkavæðingu, þrátt fyrir alla tæknibyltinguna, þrátt fyrir allar markaðslausnirnar. Þetta er alvarlegt mál og ég tel nauðsynlegt að menn ræði í fullri alvöru hvernig hægt er að breyta þessu því að ég er sannfærður um að betra sé fyrir alla aðila --- alla aðila, ég undirstrika það, að dregið sé úr ríkisafskiptunum og ríkið geri þá hluti betur sem ríkið á að vera að gera á hverjum degi. Þetta finnst mér skipta miklu máli og án þess að ég fjalli um það í löngu máli þá tel ég að þetta sé mál sem þurfi að ræða á hinu háa Alþingi því að það kemur okkur öllum svo sannarlega við. Ég get lýst skoðun minni. Ég held að ríkisvaldið eigi að vera lítið og gott í því sem það skiptir sér af.

Það er athyglisvert í umræðunni að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, sem ég hef leyft mér að telja höfund að þeirri frétt sem kom í blöðum að það vantaði 7 milljarða í bókhaldið hjá fjmrh., hafi fengið skýringu á því. Hún er einföld. Hún var samþykkt á Alþingi og það liggja öll spil á borðinu. Hann veit sem bókhaldsfróður maður að ekki er hægt að færa upp efnahagsreikning ríkisins eins og hjá fyrirtækjunum einfaldlega vegna þess að skuldirnar eru miklu meiri en eignirnar og eignirnar eru aðeins færðar að litlu leyti upp í efnahagsreikninginn því að við færum ekki upp ýmsar eignir sem eru sannanlega mikilvægari og hafa þýðingu fyrir þjóðarbúið í heild.

Hv. þm. Gísli Einarsson, sem er nýkominn úr göngum í Víðidalnum, hafði mikinn áhuga og áhyggjur af landbúnaðarmálum og sagði að þjóðargjöfin hefði verið skorin niður. Þetta er misskilningur. Þeir fjármunir sem eru sparaðir upp á 12,5 millj. eru ekki hluti þjóðargjafarinnar. Þetta eru peningar sem voru settir á ákveðið verkefni með sérstökum lögum sem sett voru á Alþingi og það var hugmyndin að Framleiðnisjóður legði á móti ákveðna fjármuni og ég vil taka sérstaklega fram að landbúnaðurinn fær meiri fjármuni í þessu lagafrv. en efni stóðu kannski til einfaldlega vegna þess að samkvæmt samningum við bændur þurfti ríkið ekki að leggja Framleiðnisjóði til fjármuni en við ákváðum að setja í fjárlagafrv. 170 millj. og auðvitað geta þessir fjármunir nýst til að hjálpa þeim bændum sem framleiða vistvæna vöru.

Ég ætla ekki vegna fjarveru Steingríms J. Sigfússonar að nefna það sem hann spurði um. Mér gefst tækifæri til þess síðar. Ég vil örlítið nefna það sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson nefndi þótt hann sé ekki heldur hér í þingsölum, en hann spurði: Fáum við ekki efnahagsreikninginn færðan upp í fjárlagafrv. í framtíðinni? Ég tel að það geti vel farið svo og tel að við eigum að stefna að því þegar við ljúkum þessu verki að breyta yfir á nýjan grunn, að þá sé hægt að bera aldeilis alveg saman fjárlögin og ríkisreikninginn en ég minni enn á að vegir, brýr, heilbrigðismannvirki og ýmsar eignir eru ekki færðar upp í efnahagsreikningnum vegna þess að það er ekki á þeim markaðsverð. En hins vegar er auðvelt að búa til eignir sem hafa tekjuvirði eins og vegir og það hafa nágrannar okkar gert bæði Bretar og Norðmenn svo ég nefni dæmi, allt í einu hafa þessi mannvirki fengið markaðsverð, þ.e. tekjuvirði vegna þess að menn hafa sett tolla og látið fólk borga fyrir að aka um vegina og nota þá. Það getur kannski breytt í einni hendingu eignum ríkisins. Ef það ætti síðan allt að fara um rekstrarreikninginn, þá gæti orðið stórkostlegur afgangur bara af þeim ástæðum á einu ári. Það væri auðvitað fullkomlega óeðlilegt, heldur mundi slíkt færast um endurmatsreikning. Ég veit að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, sem er vel að sér í bókhaldi, skilur að þótt við séum að líkja eftir því sem gerist á almenna markaðnum þá getum við ekki gert það nákvæmlega eins.

[22:00]

Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson spurði hvort ekki ætti að færa t.d. auðlindirnar upp í efnahagsreikningi. Þá komum við að því sem er kannski erfiðast í þessu öllu saman og það er að hægt er að gera mun á ríkiseign annars vegar og þjóðareign hins vegar. Það er munur á íslenskum rétti og norskum úr grárri forneskju. Í Noregi gilti reglan: Það sem einstaklingurinn á ekki á kóngurinn. Á Íslandi gilti þessi regla aldrei. Það sem einstaklingurinn átti ekki eignaðist kóngurinn aldrei. Heldur voru það almenningar og þjóðareign sem menn gátu nýtt með tilteknum hætti. Þetta er munurinn á því hvernig réttarþróunin var í eignarréttinum á Íslandi og í Noregi. Það er ekkert víst að það sé hægt að færa, þótt mikill vilji væri til þess, svokallaðar þjóðareignir, þjóðlendur, eins og sumir kalla þetta, eða þá fiskimiðin upp í efnahagsreikningi ríkisins. Það eru engin lög sem standa til þess. Þetta er hins vegar svona heimspekileg umræða sem ég ætla ekki að eyða miklum tíma í til viðbótar.

Þegar rætt er um fullorðna fólkið, eldri borgara, eins og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir gerði, þá vil ég bæta því við þau orðaskipti sem fóru milli okkar að það sem er mikilvægast fyrir þá sem eru orðnir fullorðnir, mikilvægast fyrir þá sem hafa skilað sínum vinnudegi, mikilvægast fyrir þessa eldri borgara sem segja núna að þeir þurfi að fá eitthvað í sinn hlut af góðærinu, að ríkið komi skikk á ríkisfjármálin, að við greiðum skuldirnar niður, aukum langtímasparnaðinn og samræmum lífeyrissjóðakerfið og lífeyristryggingakerfið. Að þessu er verið að vinna. Við eigum ekki að gera það með byltingu en við eigum að stefna að því að á 20--30 árum getum við komið upp kerfi þar sem fólk á vinnualdri getur lagt til hliðar fjármuni sem duga alla ævina. Það er þetta sem skiptir máli.

Loks af því að mér skilst að mér séu skammtaðar tíu mínútur, ég hélt að ég hefði meiri tíma en verð því að fara hraðar yfir sögu, þá vil ég ítreka þakkir mínar. Það sem ég held að skipti mestu máli við framlagningu þessa frv. og í 1. umr. er að benda á þær breytingar sem verið er að gera og hvar við raunverulega stöndum. Við erum að breyta framsetningu fjárlaganna. Það tekur einhvern tíma. Í framtíðinni mun verða litið á afkomuna eins og við höfum gert hingað til. Nú er það gert í nákvæmara ljósi en áður. Horft mun verða á umfangið, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson benti réttilega á. Hvert er umfangið? Er það að minnka eða stækka miðað við landsframleiðslu? Og það mun verða horft á lánsfjárþörfina vegna þess að það er sú stærð sem menn mæla þegar þeir líta á áhrif ríkisfjármálanna á fjármálamarkaðinn og á efnahag þjóðarinnar. Þetta eru þær þrjár stærðir sem menn munu líta á í framtíðinni. Við erum að fikra okkur yfir í nýtt kerfi. Sem betur fer hefur því verið tekið afar vel af hv. þingmönnum.

Í öðru lagi hefur það verið að gerast að við erum að hverfa frá því að reka ríkið á rekstrargrunni með 15 milljarða halla eins og var að meðaltali á undanförnum árum yfir í að skila fjárlagafrv. með afgangi. Það er auðvitað stórkostlegur munur. Þetta gerum við án þess að það sé með nokkrum hætti hægt að segja að ráðist sé að velferðarkerfinu. Þvert á móti er þetta gert til að styrkja stoðir velferðarkerfisins, velferðarþjóðfélagsins sem við Íslendingar erum allir sammála um, hvar í flokki sem við stöndum, að þurfi að styrkja og sé eitt af séreinkennum íslenska þjóðfélagsins eins og þeirra norrænu.

Í þriðja lagi bendi ég á að bæði útgjöld og skattar lækka í þessu fjárlagafrv. sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.

Í fjórða lagi er lánsfjárþörfin að dragast saman svo mikið að það munar 8 milljörðum á milli áranna 1998 og 1997 og hægt er að greiða niður skuldir íslenska ríkisins um 5 milljarða. Þá spyr ég eins og hv. þm. Guðrún Helgadóttir gerði: Kemur þetta fólki við? Já, þetta kemur fólkinu í landinu svo sannarlega við. Þetta kemur sjúklingunum við, sjómönnunum við, þetta kemur gömlu fólki við, þetta kemur öllum við. Vegna hvers? Vegna þess að það kemur fólki við að skuldirnar lækka því þær lækka ekki af sjálfu sér. Það gerist ekki nema að á þessum málum sé tekið. Það kemur þessu fólki við vegna þess að við borgum á milli 14 og 16 milljarða á ári í vexti. Ef við skulduðum ekki gætum við notað þá fjármuni til annars. Þess vegna kemur það sem við erum að tala um í þessari umræðu öllum Íslendingum við.

Ég verð að benda á það að síðustu, því að tíma mínum er lokið, að munurinn á umræðunni hér og í Noregi, Danmörk og Svíþjóð er fyrst og fremst sá (Forseti hringir.) að þeir búa við minnihlutastjórnir, þar þarf ríkisstjórn á hverjum tíma að semja við stjórnarandstöðuna. Sem betur fer búum við hér, og erum öfundaðir af öðrum Norðurlandabúum, við gott og traust stjórnarfar tveggja flokka sem hafa sýnt það í samstarfinu að þeir eru þess megnugir að bæta efnahag þjóðarinnar öllum borgurum hennar til hagsbóta.