Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 22:07:12 (249)

1997-10-08 22:07:12# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[22:07]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst taka undir það sem fram kom hjá hæstv. fjmrh. að fremur lítið fer fyrir pólitískri umræðu um grundvallaratriði eins og hvert hlutverk ríkisins eigi að vera og hvernig menn vilja hafa ríkisvaldið. Ég vakti athygli á því að ég teldi þörf á breytingum í þeim efnum. Ég tek undir þær ábendingar ráðherrans að þörf er á umræðu um það í þjóðfélaginu.

Almenningar eru það sem engin á, er gömul skilgreining á almenning. Mér finnst það miklu betri skilgreining heldur en að tala um sameign þjóðarinnar sem er hugtak sem er fremur óljóst og hefur verið notað til að rökstyðja aðra hluti en því er í raun og veru ætlað. Ég vil halda gamla hugtakinu til haga og tel það að mörgu leyti skýrara og betra til að lýsa ákveðnum sjónarmiðum en hitt hugtakið um sameign þjóðarinnar.

Ég vil að lokum, herra forseti, fjalla aðeins um þær lífeyrissjóðsskuldbindingar sem falla til en eru ekki færðar um rekstrarreikning ríkissjóðs. Það er óumdeilt að þær falla til. Þarna er um að ræða ný útgjöld sem ekki hefur áður verið gert ráð fyrir. Það kemur skýrt fram í fjárlagafrv. sjálfu þar sem segir: ,,Hækkun lífeyrisskuldbindinga er áætluð 10,5 milljarðar kr. á næsta ári``, svo ég lesi þetta orðrétt upp. Síðan er ákveðið að færa aðeins hluta af þessari útgjaldahækkun yfir rekstrarreikning en ekki allan. (Forseti hringir.) Það er það sem ég geri athugasemdir við og gæti rökstutt í ítarlegra máli ef þörf er á og borið saman við t.d. færslur vaxtagjalda að þessi færsla sem gerð er í fjárlagafrv. er ekki eðlileg að mínu mati.