Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 22:14:33 (252)

1997-10-08 22:14:33# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[22:14]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í ríkisreikningi fyrir árið 1996 var fjallað um reikningsskilaaðferðir. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Áhrif almennra verðbreytinga eru ekki sýnd í rekstrarreikningi A-hluta ríkissjóðs. Þess í stað eru breytingar á stöðu efnahagsliða vegna gengismunar og verðbóta færðar á höfuðstólsreikningum endurmats samanber ákvæði 35. gr. laganna. Verðtryggð og gengisbundin veitt og tekin lán eru uppfærð miðað við skráð gengi`` o.s.frv.

[22:15]

Svo segir einnig: ,,Í ríkisreikningi miðast færsla lífeyrisskuldbindinga ríkissjóðs við áfallnar skuldbindingar þar sem nýjar skuldbindingar færast um rekstrarreikning og launabreytingar um endurmatsreikning.`` Af hverju launabreytingar? Það er vegna þess að gamli hluti sjóðsins, B-deildin sem hann heitir núna, færist upp um launabreytingar vegna þess að þar er um að ræða svokallaða eftirmannsreglu. Það liggur í hlutarins eðli að það er ekki vegna ársins. Þetta er uppfærsla sem færist upp nákvæmlega eins og um verðbætur væri að ræða. Það er ekkert öðruvísi. Hins vegar til þess að koma til móts við hv. þm. sem ég held að hljóti nú að vera hægt, þá get ég huggað hann með því að við getum þó gert þær breytingar, og þar stóð hv. þm. með okkur, á Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna að nýir starfsmenn og sumir eldri starfsmenn eru núna í A-deild og þar eru greiddir inn þeir peningar á ári hverju sem duga fyrir lífeyrisskuldbindingunum þannig að smám saman á næstu árum hættir þetta vandamál að vera til. Það verður kannski til nokkur ár eftir að ég hætti hér á þinginu en ég er sannfærður um að ef hv. þm. situr nógu lengi, þá getur farið svo að það verði komið fullt jafnvægi á þessa hluti þegar upp er staðið einfaldlega vegna þess að þetta vandamál er sem betur fer að hverfa því að við höfum tekið upp uppsöfnunarsjóð í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og það er kannski stærsta framfarasporið í þessum efnum sem tekið hefur verið og þá er ekki lengur hægt að rífast um það hvernig á að færa þetta í bókhaldinu.