Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 22:19:28 (254)

1997-10-08 22:19:28# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[22:19]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi er það misskilningur af hálfu hv. þm. að ég hafi sagt að það ætti að ræða sem minnst um atvinnuleysið. Ég benti einungis á að annars staðar eins og t.d. í Danmörku ræða menn um atvinnuþátttöku í stað atvinnuleysis til að draga fram þá staðreynd að þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi aukist, þá hefur atvinnuþátttakan aukist verulega mikið og er meiri nú en þegar atvinnuleysi, mælt sem skráð atvinnuleysi, var miklu minna en í dag. Þetta er það sem skiptir máli vegna þess að þetta sýnir breytta þjóðfélagsgerð. Við erum að tala um atvinnuleysisskráningu. Og ég benti hv. þm. á ágæta grein sem ég bið hann um að lesa sem fjallar um það sem á enskri tungu heitir Natural line sem ég þori nú ekki að þýða á íslensku, um að líklega sé svo komið að erfitt sé að færa atvinnuleysið niður úr ákveðnu stigi í vissum þjóðfélögum af ýmsum ástæðum. Ég ætla ekki að fara að orðlengja það hér. En að ég hafi ekki viljað ræða um atvinnuleysið, það er mesti misskilningur. Ég var bara að benda á að það er ekki hægt að bera saman atvinnuleysisskráninguna núna og fyrir tíu árum síðan.

Í öðru lagi ræddi ég um ríkisreksturinn. Og hvað sagði ég? Ég sagðist vera sammála hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni um að það ætti sem mest að daga úr ríkisumsvifunum. Svo kemur annar úr hans flokki og mótmælir þessu sem hörðu frjálshyggjukjaftæði. Hvor þeirra er fulltrúi Alþb. og hvor fulltrúi óháðra og þurfa ekki fulltrúar þessara tveggja afla að koma sér saman um málflutninginn í þessum efnum? Ég skil nú ekki út af fyrir sig þessa oftrú á ríkisvaldinu.

Svo segir hann: ,,Kaldar kveðjur til gamla fólksins.`` Eru það kaldar kveðjur til fullorðinna þegar það liggur fyrir nú svart á hvítu, liggur fyrir alls staðar, að kaupmáttaraukning bóta sem vissulega eru ekki háar, ég skal viðurkenna það, en kaupmáttaraukning þeirra, það sem fæst fyrir bæturnar hefur hækkað og hækkar um 10--11% frá 1. janúar á þessu ári og þar til í byrjun næsta árs. Þetta eru staðreyndir sem liggja á borðinu.