Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 22:21:52 (255)

1997-10-08 22:21:52# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[22:21]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var mjög upplýsandi sem hér kom frá hæstv. fjmrh. Hann talar um breytta þjóðfélagsgerð. Í breyttri þjóðfélagsgerð sem væntanlega býr þá við kerfislægt atvinnuleysi, þá eigum við að tala um atvinnuþátttöku. Við eigum að taka því sem náttúrulögmáli að hér ríki atvinnuleysi. Frá stríðslokum, frá lokum seinna stríðs, hefur fram á þennan áratug með sárafáum undantekningum verið full atvinna á Íslandi. Það hefur ekki verið atvinnuleysi. Núna hins vegar eru um 5.000 einstaklingar á Íslandi, vinnufærir einstaklingar, án atvinnu og nú er hæstv. fjmrh. farinn að tala um breytta þjóðfélagsgerð. Við eigum að taka því að við búum við viðvarandi kerfislægt atvinnuleysi og við skulum þess í stað tala um atvinnuþátttöku og við skulum víkja hinu til hliðar.

Varðandi samneysluna og samfélagsþjónustuna almennt, þá er það misskilningur að ég hafi einhverja ofurtrú á ríkisvaldi. Það er alrangt. Ég hef talað um mikilvægi samfélagslegrar þjónustu og mikilvægi hennar fyrir samfélag þjóðfélagsþegnanna allra.

Varðandi þriðja atriðið velti ég því stundum fyrir mér hvort og að hvaða marki hæstv. ráðherrar og hæstv. ríkisstjórn eru í tengslum við umhverfi sitt, við fólkið í landinu. Gera menn sér grein fyrir því að lyfjakostnaður heimilanna er á sjöunda milljarð kr. og hefur farið mjög vaxandi? Gerir hæstv. ráðherra fjármála sér grein fyrir því að fjölmargt fólk úr röðum eldri borgara, öryrkjar og lífeyrisþegar, hefur ekki efni á lyfjum sínum? Það hafa komið fram fjölmörg dæmi þess að fólk er að fá lánað hjá apótekum til að eiga fyrir lyfjum. Eða taka menn ekki alvarlegar niðurstöður kannana sem sýna að fimmtungur þjóðarinnar sem hefur undir 230 þús. kr. ráðstöfunartekjur á mánuði hefur ekki efni á því að sækja tannlæknaþjónustu og að gamalt fólk margt, eftir að dregið var úr stuðningi við lífeyrisþega vegna tannverndar, hefur ekki efni á því að festa kaup á gervitönnum. Ég meina, eru menn ekki í tengslum við það sem er að gerast í landinu? ,,Nei``, segir hæstv. fjmrh. ,,Þið skuluð bíða næstu árin og áratugina þar til við höfum náð skuldunum niður.``