Fjárlög 1998

Miðvikudaginn 08. október 1997, kl. 22:24:47 (256)

1997-10-08 22:24:47# 122. lþ. 5.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur

[22:24]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem við höfum verið að ræða um atvinnuleysi og atvinnuþátttöku og breytta þjóðfélagsgerð er að nú er farið að viðurkenna það í þjóðfélaginu að fólk geti skráð sig á atvinnuleysisskrá með allt öðrum hætti heldur en áður var. Ég er ekki að leggja dóm á hvort það sé verra eða betra. Ég er að benda á að ein af ástæðunum fyrir því er að atvinnuþátttakan í dag er miklu meiri en hún var. Atvinnuleysi kvenna mælist meira heldur en atvinnuleysi karla vegna þess m.a. að hér áður fyrr skráðu konur sig ekki á atvinnuleysiskrá ef þær höfðu ekki vinnu því að það þótti ekki sjálfsagt fyrir tíu árum síðan eða 20 árum að konur ynnu allt árið utan heimilisins. Þetta hefur breyst og þetta skýrir að hluta til hvernig á því stendur að atvinnuleysiskráningin svona. (ÖJ: Vegna þess að samsetning ...) Ef ég fæ nú frið fyrir hv. þm., virðulegi forseti, þá er ég að gera mér vonir um það, og fleiri, að með því að beita vinnumiðlununum meira en gert hefur verið með virkari hætti til þess að endurmennta fólk þá takist okkur að ná enn meiri árangri. Og þeir sem kannski eiga um sárast að binda auk þessara kvenna sem við höfum verið að ræða hér um og ekki skal gert lítið úr, eru fullorðnir karlmenn, karlmenn yfir fimmtugt sem hafa misst vinnuna en vilja ekki taka þau störf sem í boði eru, m.a. vegna þess að þau eru talin vera kvennastörf, það er eitt af því sem kemur í ljós, eða hafa ekki menntun og vilja ekki endurmennta sig af einhverjum ástæðum. Þetta eru vandamál sem hafa komið upp hér á landi, í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð og menn eru að reyna að fást við þessi vandamál. Og það eina sem ég hef sagt hér er að það eru til skýringar á þessu og það var beðið um skýringar á þessu og ég hef reynt að koma með þær sem ég þekki, en auðvitað verðum við að vinna saman að því að leysa vandamálið með þeim leiðum og úrræðum sem við þekkjum best.