1997-10-09 10:37:04# 122. lþ. 6.91 fundur 35#B málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna# (umræður utan dagskrár), menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[10:37]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að gefa mér færi á að fara nokkrum orðum um þetta mál hér á Alþingi, en vegna álits umboðsmanns Alþingis taldi stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna sér skylt að fara yfir reglur sínar um úthlutun á lánum til háskólastúdenta í deildum þar sem fjöldatakmarkanir gilda. Kom þá í ljós að svo lengi sem menn muna hafi sjóðurinn talið rétt að lána nemendum sem búa við fjöldatakmarkanir tvisvar til að reyna að komast áfram eftir fyrsta missiri ef þeir fullnægja kröfum viðkomandi deildar. Var það niðurstaða meiri hluta stjórnar sjóðsins að frá þessari starfsreglu, sem hvergi er skráð í úthlutunarreglum, bæri að hverfa með vísan til jafnræðisreglna. Það var meginniðurstaða hjá stjórn lánasjóðsins að henni bæri að sjá til þess að allir námsmenn sætu við sama borð að því er þetta varðar, m.a. með vísan til þess að hvergi er í úthlutunarreglum sjóðsins getið um þá reglu að menn geti fengið tvisvar sinnum lán ef menn eru í deildum þar sem um fjöldatakmarkanir er að ræða.

Ég hef í sjálfu sér ekkert við þessa ákvörðun stjórnar sjóðsins að athuga ef það er rétt mat og lögfræðilega rétt niðurstaða að túlka beri álit umboðsmanns Alþingis á þennan hátt. Námsmenn telja hins vegar ekki um brot á jafnræðisreglunni að ræða þar sem staðan vegna fjöldatakmarkana sé skýr og ótvíræð í reglum um Háskóla Íslands. Þar sem hv. þm. vék sérstaklega að lagadeildinni er hann að fara út fyrir þau mörk sem námsmenn telja eðlilegt að miða við og er þá kannski að fara frekar inn á þær brautir sem stjórn lánasjóðsins taldi sér skylt að fara og þess vegna taldi stjórnin sér skylt að draga í land varðandi þessa reglu því að hún var að velta því fyrir sér hvort jafnræðisreglan næði þá til annarra nemenda en þeirra þar sem greinilega er um fjöldatakmarkanir að ræða. Námsmenn hafa ekki óskað eftir því að þetta verði skýrt með þeim hætti heldur miða við þá nemendur þar sem fjöldatakmarkanir gilda.

Ég ræddi við fulltrúa námsmanna um þetta mál í gær á ágætum fundi sem ég átti með þremur fulltrúum frá stúdentaráði. Ég hef einnig rætt málið við formann stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna. Ég er þeirrar skoðunar að skoða þurfi alla þætti málsins betur. Það er að koma í ljós á grundvelli stjórnsýslulaga og annarra reglna sem gilda að nauðsynlegt er að fara ofan í margar starfsaðferðir sem gilt hafa í okkar stjórnkerfi og gera þær skýrari. Hér er dæmi um eina slíka reglu sem menn hafa ekki áttað sig á að væri í gildi og var ákveðin í stjórn lánasjóðsins fyrir mörgum árum eða áratugum án þess að skráð hafi verið um hana í úthlutunarreglur. Ég tel sjálfur að taka eigi af skarið í þessum málum í úthlutunarreglum um sjóðinn og þetta eigi að vera gegnsæ regla sem allir vita um og starfa eftir m.a. með hliðsjón af því að ákvæði hafa verið sett í lög um málskotsnefnd sem ber að taka afstöðu til mála á grundvelli reglna sem liggja fyrir skýrar og ótvíræðar og getur ekki starfað nema svo sé. Þess vegna hef ég mælst til þess að lánasjóðurinn aðhafist ekki í þessu máli, sendi ekki frá sér nein bréf eða erindi um málið á meðan það er til skoðunar og athugunar, og lögfræðilegt mat verði lagt á það hvernig eigi að bregðast við þessu áliti umboðsmanns sem er vísbending um að taka þurfi á þessu hjá stjórn lánasjóðsins eins og hún gerði. Það er sú athugun sem ég mun beita mér fyrir og tel líklegt að menn komist að sameiginlegri niðurstöðu að lokum sem allir geta við unað.

Þetta vildi ég láta koma fram í þessum umræðum og þakka fyrir tækifærið til þess að gera það. Þetta mál er til efnislegrar athugunar á vegum menntmrn. í samvinnu við námsmenn og stjórn lánasjóðsins og stjórnin mun ekki senda frá sér nein erindi um málið á meðan ég er með það í athugun og könnun fer fram á því hvar menn standa lagalega. Hvað kallar álit umboðsmanns á að gert sé frekar en að stjórn lánasjóðsins fjalli um málið? Er ekki nauðsynlegt að taka á þessu áliti og ábendingum í því í úthlutunarreglunum þannig að þetta liggi skýrt fyrir?