Málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 10:44:00 (261)

1997-10-09 10:44:00# 122. lþ. 6.91 fundur 35#B málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna# (umræður utan dagskrár), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[10:44]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Þessi ákvörðun stjórnar lánasjóðsins kom nokkuð á óvart því að hingað til hefur verið sátt um sérstöðu clausus-nema við Háskóla Íslands. Það er hins vegar alveg ljóst að þetta gerist í kjölfar álits umboðsmanns. Álit umboðsmanns leiðir það af sér að stjórninn treystir sér ekki lengur til að halda óbreyttum ívilnandi reglum fyrir nemendur í námi þar sem eru fjöldatakmarkanir vegna þess að það beri að gæta jafnræðis gagnvart stúdentum í öðru námi.

Hins vegar er hin almenna regla sjóðsins sú að ekki er lánað nema einu sinni til sama náms. Mér finnst þetta sýna mjög vel hvað öll þessi mál eru viðkvæm og flókin og ég fagna því að ráðherra vill að þau verði skoðuð mjög rækilega. Ég vænti þess að gengið verði í það og fengin niðurstaða í málið mjög fljótlega.

En það er annað sem ég vildi benda á í þessu sambandi og það er hvernig framkvæmd fjöldatakmarkana í Háskóla Íslands er í rauninni komin út í ógöngur. Stærsti hluti stúdenta nær ekki í gegn nema í annarri eða þriðju tilraun og námið á fyrsta ári tekur þar af leiðandi að jafnaði um eitt og hálft ár fyrir námsmenn sem eru að skila góðum námsárangri. Það er þess vegna mikið umhugsunarefni hvort þetta kerfi sé heppilegt fyrir einstaklingana og þá líka hvort það sé heppilegt fyrir viðkomandi greinar. Þess vegna er alveg ljóst að nauðsynlegt er að þessi mál verði öll tekin til endurskoðunar í framtíðinni við háskólann. Það má líka benda á að samræmd stúdentspróf í framhaldsskólum geta leitt til þess að unnt verði að gera nauðsynlegar breytingar sem gera þessa framkvæmd manneskjulegri en hún er í dag.