Málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 10:57:28 (267)

1997-10-09 10:57:28# 122. lþ. 6.91 fundur 35#B málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[10:57]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það sem ég gerði í umræðunni var að skýra frá ákvörðunum sem ég hafði tekið eftir umræður við námsmenn og formann stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna í gær og þakka fyrir að fá tækifæri til þess á Alþingi sem mér finnst réttur vettvangur til þess að skýra frá slíkum ákvörðunum. Ég tek ekki undir það með hv. þm. að það beri að vanmeta störf stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna eða meirihlutamanna sem sitja þar í stjórninni. Þvert á móti hefur það tekist núna tvö ár í röð að komast að samkomulagi í stjórn lánasjóðsins um úthlutunarreglur og þær starfsreglur sem gilda um sjóðinn. Það er mjög eðlilegt þegar mál af þessu tagi koma upp að þá geti komið upp ósamkomulag um túlkun á reglum en þá ber að taka á því og skoða það eins og ætlunin er að gera og leggja á það pólitískt og lögfræðilegt mat hvernig að úrlausn málsins skuli staðið.

Herra forseti. Vandinn við umræður af þessu tagi utan dagskrár er að þingmenn koma alltaf og flytja gömlu stílana sína og eru ræðurnar bara eins og út í hött miðað við umræðuefnið. Hv. þm. Ágúst Einarsson flytur alltaf sömu ræðuna og er nú enginn staðnaðri í menntamálum heldur en hann miðað við að hann getur aldrei flutt annað en sömu gömlu ræðuna og sömu tugguna um að ekkert sé að gerast þrátt fyrir miklar framfarir í menntamálum. Og sömu sögu er að segja um aðra þingmenn. Þeir koma upp með ritaða stíla og lesa þá án tillits til þess hvað fram kemur í umræðunum og hvað það er sem ráðherra er að lýsa yfir og segja og frá hvaða ákvörðunum er verið að skýra. Þetta finnst mér rýra mjög gildi umræðna utan dagskrár og sýna að þær eru frekar notaðar í einhverjum áróðurstilgangi heldur en að reyna þá að fá fram niðurstöður ráðherra og viðhorf þeirra til úrlausnarefnanna. Það fer illa á því að nota þennan vettvang til að flytja einhverjar almennar upphrópanir og vera með skítkast helst í garð ráðherra þegar þeir eru að svara hér og sinna þingskyldum sínum og svara fyrirspurnum.