Hlutafjárvæðing ríkisbanka og fjárfestingarlánasjóða

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 11:14:02 (273)

1997-10-09 11:14:02# 122. lþ. 6.92 fundur 36#B hlutafjárvæðing ríkisbanka og fjárfestingarlánasjóða# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[11:14]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það hefur nú komið fram sem ég og aðrir héldum fram á síðasta þingi. Það var auðvitað ekkert aðalatriðið hjá ríkisstjórninni að breyta bönkunum í hlutafélög til að gera bankakerfið hagkvæmara og skilvirkara þannig að það yrði rekið meira út frá viðskiptalegum sjónarmiðum án pólitískra afskipta. Aðaltilgangurinn var auðvitað að auðvelda helmingaskipti stjórnarflokkanna sem vikum saman hafa verið í pólitískum hrossakaupum með bankakerfið og fjárfestingarlánasjóðina. Þarna fær einkavinavæðing stjórnarflokkanna notið sín og sjálfsagt er þetta bara forsmekkurinn, herra forseti, að einkavinavæðingunni sem að fullu mun sýna sig þegar hafin verður sala á bönkunum.

Hæstv. viðskrh. hefur dregið í land frá síðasta þingi þegar hann upplýsti að engin breyting yrði við hlutafélagavæðinguna á aðgengi þingmanna að upplýsingum um starfsemi bankanna, m.a. starfskjörum bankastjóranna og stjórnenda bankanna. Nú vísar hæstv. ráðherra bara á ársreikninga bankanna varðandi þetta efni.

Herra forseti. Það er óþolandi að búa við það að verið sé að setja hömlur á eftirlitsskyldu Alþingis með framkvæmdarvaldinu. Við því þarf þingið að bregðast með lagasetningu, ef nauðsyn krefur, sem veitir þinginu ótakmarkaðan aðgang hvenær sem er, ekki bara í ársreikningum, að stofnunum sem breytt hefur verið í hlutafélög a.m.k. þegar þær eru í eigu ríkisins. Komi í ljós að hefta eigi aðgang að upplýsingum um starfsemi bankanna munum við jafnaðarmenn íhuga að flytja lagabreytingu sem opnar að fullu aðgang þingsins að bönkunum þannig að þingið geti sinnt eftirlitsskyldu sinni ef í ljós kemur að hæstv. ráðherra ætlar að ganga á bak orða sinna sem hann sagði á síðasta þingi.

Herra forseti. Ég spyr: Hefur hæstv. ráðherra skipt um skoðun frá því sem hann sagði í þessum ræðustól (Forseti hringir.) að þingið hefði óheftan aðgang að upplýsingum um bankana eftir að þeim hefði verið breytt í hlutafélög?