Hlutafjárvæðing ríkisbanka og fjárfestingarlánasjóða

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 11:26:53 (279)

1997-10-09 11:26:53# 122. lþ. 6.92 fundur 36#B hlutafjárvæðing ríkisbanka og fjárfestingarlánasjóða# (umræður utan dagskrár), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[11:26]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Eftir að hafa hlustað á hv. þm. stjórnarandstöðunnar lýsa yfir þeim óskaplegu vonbrigðum sem þeir hafi orðið fyrir með þessa formbreytingu sem er að eiga sér stað, þá stendur bara eitt upp úr. Og hvað er það? Það er það að reka þyrfti bankastjórana. Það hefur ekkert annað komið fram hjá hv. þm. stjórnarandstöðunnar við umræðuna en að reka átti bankastjórana. Með öðrum orðum, þessir hv. þm. vildu skapa ótta hjá starfsmönnunum við hugsanlega nýja stjórnendur sem væri ekki ljóst hverjir yrðu, hugsanlega setja viðskiptasambönd viðkomandi banka í upplausn gagnvart lánardrottnum erlendis og um leið hugsanlega líka að setja þá viðskiptamenn, sem þessir bankar eru með beint trúnaðarsamband við, oft á tíðum, líka á annan endann. Eina sem hv. þm. stjórnarandstöðunnar hafa kvartað yfir er að bankastjórarnir skyldu ekki allir hafa verið reknir með tölu. En þeir hafa þó ekki haft fyrir því að lýsa yfir ánægju sinni með það að allir forstjórar sjóðanna skyldu verða reknir. Nei, og þetta tal um helmingaskiptin --- ég held að þau hafi nú opinberað sig hjá hv. þm. þegar menn eru að tala um skiptin milli Framsfl. og Sjálfstfl. í þessu kerfi. Hvar hafa hv. þm. Alþfl. fram til þessa staðsett Björgvin Vilmundarson, sem ég hef frétt að hafi verið boðið að verða aðalbankastjóri Landsbankans? Er hann annaðhvort framsóknarmaður eða sjálfstæðismaður? Hvar hafa hv. þm. Alþfl. staðsett þennan ágæta núverandi bankastjóra í pólitíkinni?

Það sem við höfðum að leiðarljósi þegar við völdum nýja stjórn fyrir þessi fyrirtæki var að þessir menn hefðu þekkingu, þeir hefðu reynslu af rekstri og stjórnun fyrirtækja og þeir hefðu reynslu af að stýra fyrirtækjum á fjármagnsmarkaði. Og skoðið þið, farið þið yfir hvaða menn það eru sem þarna hafa valist til stjórnar. (Forseti hringir.) Þessir menn uppfylla allir þessi skilyrði fyrir utan það, að ég lýsti því yfir á Alþingi á sínum tíma að ég vildi eiga gott samstarf við stjórnarandstöðuna um þetta mál. Alþingi kaus hins vegar ekki þessa fulltrúa. (Forseti hringir.) Eitt orð, með leyfi forseta, ég talaði bæði við formenn Alþb. og Alþfl. og ráðfærði mig við þá þegar ég var að leita að nýjum fulltrúum. (Forseti hringir.) Niðurstaðan var sú hjá formanni Alþfl. að skynsamlegast væri (Forseti hringir.) að gera sem alminnstar breytingar og því valdi hann sér sama fulltrúa aftur í stjórn þessa fyrirtækis.