Svör ráðherra í utandagskrárumræðu

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 11:30:05 (280)

1997-10-09 11:30:05# 122. lþ. 6.96 fundur 38#B svör ráðherra í utandagskrárumræðu# (um fundarstjórn), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[11:30]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Nú erum við að upplifa það í annað skipti í morgun í utandagskrárumræðu að ráðherra misnotar rétt sinn að tala síðastur. Hæstv. ráðherra sagði hluti sem ég veit ekki betur til en séu ósannir þegar hann segir um tilnefningu í bankaráð ríkisviðskiptabankanna að hann hafi ráðfært sig við formenn flokkanna og ekki efa ég að það hafi verið samtöl. Hann vitnaði til formanns Alþfl., sem ég veit ekki hvort er hér í húsinu, en segir að hann hafi talið að það ættu að verða sem allra minnstar breytingar og ég held að ráðherrann hafi lokið máli sínu með að segja: ,,... og valdi sama fulltrúa áfram í bankaráð.`` Ég held að það hafi verið orðalagið. Hins vegar liggur ljóst fyrir að ráðherra tilnefnir menn í bankaráðin. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef lýsti formaður Alþfl. því yfir við ráðherra að hann vildi ekki nefna nein nöfn í sambandi við tilnefningarnar. Mér finnst mjög vont að ásakanir skuli koma fram á fjarstaddan þingmann og það er það, herra forseti, sem ég geri athugasemd við og kvaddi mér þess vegna hljóðs um fundarstjórn forseta. Hv. þm. sem er fjarstaddur og aðrir sem koma að því, þá væntanlega líka formaður Alþb., hafa rétt á því að hið sanna í málinu komi í ljós.