Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 11:53:49 (286)

1997-10-09 11:53:49# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[11:53]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Veiðileyfagjald er ákaflega loðið hugtak og ég hef ekki enn þá fengið botn í hvað það í rauninni þýðir. Er það skattur? Ef það er skattur, þá eru þessi rök sem ég nefndi rétt. Ef það er leiga, þá eiga þau ekki við. En leigu borga menn til eigandans, ekki til ríkisins. Ég geri mjög skarpan mun á þjóðinni og ríkinu. Ég geri mjög skarpan mun á fólkinu í landinu og ríkissjóði. Það sem rennur í ríkissjóð er skattur og ef þetta er skattur, þá er búið að viðurkenna kvótaeignina. En hins vegar ef við erum að tala um leigu sem rynni til allrar þjóðarinnar sem ég hef margoft bent á að eigi að gera, það eigi að dreifa kvótanum á alla þjóðina, þá horfir málið allt öðruvísi við. Þá er þetta ekki skattur, þá er þetta ekki viðurkenning á eign, heldur borga menn leigu til eigandans sem er fólkið í landinu.