Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 11:54:47 (287)

1997-10-09 11:54:47# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[11:54]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Veiðileyfagjald er gjaldtaka í tengslum við úthlutun veiðiheimilda fyrir afnot af sameiginlegri auðlind. Þetta er skilgreint í okkar tillögum. Við erum að tala um álagningu veiðileyfagjalds og að það renni til fólksins í landinu. Það renni til fólksins í landinu með þeim eina hætti sem hægt er, þ.e. að það renni í gegnum ríkissjóð og síðan mun ríkissjóður lækka aðra skatta til baka. Er veiðileyfagjald skattur? Veiðileyfagjald er ekki skattur í skilningi hagfræðinnar ef það er látið renna til þess að standa skil á kostnaði vegna sjávarútvegs. Þetta eru alþjóðlegar skilgreiningar. Þetta er dálítið flókin umræða en sleppum henni.

Aðalmálið er að veiðileyfagjaldið er lagt á og það er notað til þess að lækka skatta almennings, en það ber hv. þm. fyrir brjósti. Við nefnum sérstaklega tekjuskatt einstaklinga. Við höfum nefnt aðra hluti, að menn geti ráðstafað veiðileyfagjaldinu til annarra mála, lækkun erlendra skulda, sérstakra byggðaaðgerða ef menn kjósa svo, en það er alveg augljóst ... (PHB: Hverjir borga skatt ...) Þú ert ekki að borga neinn viðbótarskatt ef þú greiðir segjum 2 milljarða í veiðileyfagjald, þ.e. handhafar kvótans greiða 2 milljarða í veiðileyfagjald og tekjuskattur einstaklinga lækkar á móti um 2 milljarða. Þá er þetta orðin stórfelld kjarabót fyrir fólkið í landinu sem hv. þm. ber fyrir brjósti og ég vona að hann hafi þá náð útfærslu okkar í þessum efnum.

(Forseti (ÓE): Forseti minnir nú enn á ákvæði 54. gr. þingskapa um að ræðumaður skuli jafnan víkja ræðu sinni til forseta eða fundarins en ekki ávarpa nokkurn einstakan þingmann.)