Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 12:23:21 (291)

1997-10-09 12:23:21# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[12:23]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Sú till. til þál. sem um er að ræða tekur á mjög stórum vanda sem er mikið til umræðu í þjóðfélaginu. Í umræðunni er því miður oft mikið um misskilning og mistúlkanir og menn skipa hlutunum ekki rökfræðilega í einingar. Við erum að blanda saman umræðu um fiskveiðistjórnunarkerfi og eignarhald á þeim arði sem myndast vegna stjórnunarkerfisins.

Fiskveiðistjórnunarkerfið getur bæði verið aflamarkskerfi þar sem menn mega veiða viss mörg kíló eða sóknarmarkskerfi þar sem menn geta veitt ákveðinn fjölda daga. Í báðum kerfunum er verið að takmarka aðgang að auðlindinni. Það er mjög nauðsynlegt því annars hyrfi hún. Það að takmarka aðganginn þýðir að einn fær að veiða og annar ekki og sá sem ekki fær að veiða er tilbúinn til að greiða fyrir að fá að veiða í báðum kerfunum og þannig myndast verðmætin.

Bæði kerfin hafa galla. Aflamarkskerfið hefur í för með sér brottkast sem er mjög skaðlegt og sóknarmarkskerfið hefði í för með sér mjög mikla sókn á stuttum tíma sem yrði aftur til þess að allt of mikill afli bærist að landi, sóknin yrði hættuleg o.s.frv. Við höfum valið aflamarkskerfið og ég held að aflamarkskerfið sé í sjálfu sér gott og það hafi sannað gildi sitt.

Það sem menn eru að vandræðast með er eignarhaldið á þeim verðmætum sem myndast við það að sóknin er takmörkuð. Í því sambandi tala menn um framsal og sumir vilja banna framsal. En framsalið er akkúrat nauðsynlegt til þess að ná fram hagræðingu í kerfinu. Maður nokkur á t.d. tvö skip og getur veitt þann afla sem hann má veiða í aflamarkskerfinu með einu skipi. Ef hann má ekki veiða afla með einu skipi þá kemur ekki fram sú hagræðing sem annars er til staðar þannig að framsal er nauðsynleg forsenda hagræðingar í kerfinu. Það sem aftur á móti myndast við framsalið er að einhver getur framselt sinn hlut gegn gjaldi og spurningin mikla er: Hvert rennur það gjald? Hvar er eignarhaldið? Og það er eignarhaldið sem við erum að tala um en ekki neitt annað.

Í þessari tillögu eru lagðar fram, nokkuð loðið, þrjár hugmyndir um hvað mætti gera. Menn tala um að setja á veiðileyfagjald, þ.e. skatt eða leigu eða hvað má kalla það, ákveðna krónutölu, á kíló þorskígildis. Þetta hefði þann ókost að ef illa gengur í sjávarútvegi þá verður ríkið að lækka þetta gjald en það getur það yfirleitt ekki. Ríkið á yfirleitt í mjög miklum vandræðum með að lækka skatta vegna þess að það er búið að ráðstafa þeim, það er búið að ráða opinbera starfsmenn, það er búið að setja sig í skuldbindingar.

Hins vegar er talað um að hafa eins konar uppboð á þessu og svo hafa menn talað um það að dreifa þessu meðal þjóðarinnar og það er sú hugmynd sem ég gæti fallist á og hef margoft bent á að væri leiðin í þessu til þess að koma eignarhaldinu á hreint. Að því leyti get ég fallist á þau rök sem í frv. koma fram, þ.e. þá leið að dreifa þessu til þjóðarinnar og ég geri, eins og ég gat um áðan í umræðunni, skarpan mun á fólkinu í landinu, einstaklingnum, þ.e. Jóni Jónssyni verkamanni og svo ríkissjóði sem skattheimtuaðila sem er nokkuð langt frá honum Jóni Jónssyni. Og ég vil sjá þessa auðlind eða afgjaldið af henni renna til einstaklinga í landinu, til fólksins í landinu en ekki til ríkisins.

Hins vegar þarf það að gerast á nokkuð löngum tíma vegna þess að sumir eru nýbúnir að kaupa kvóta á 800 kr. kg og það yrði mjög ósanngjarnt og óréttlátt ef sá kvóti yrði tekinn af þeim með einu pennastriki þannig að þetta þarf að gerast á löngum tíma. Ég hef stungið upp á því að þetta gerist á t.d. 20 árum þannig að þeir útgerðarmenn sem núna eru með kvótann í höndunum og mega veiða hann hafi góðan tíma, nokkuð mörg ár, til þess að afskrifa þessa eign sína eða eign þjóðarinnar og þannig rynni eignin til þjóðarinnar á 20 árum.

Þróun undanfarinna ára og það sem veldur þeirri ólgu í þjóðfélaginu sem hefur komið fram er að ýmsu leyti vegna þess að verið er að festa kerfið í sessi. Ef við búum við þetta kerfi í svo sem fimm eða tíu ár í viðbót þá verður ekki aftur snúið þannig að það er orðið brýnt að taka á þessu máli með eignarréttinn, eignarhaldið á þeim auðlindum sem myndast, fyrr en seinna. Við sjáum alls konar dæmi, við sjáum hæstaréttardóma um skiptingu. Við sjáum kröfur um skiptingu við búskipti. Við sjáum afskriftarkröfur. Við sjáum eignfærslu í reikningum fyrirtækja og alls konar vandamál skattalegs eðlis sem öll lúta að því --- veðsetningarkröfur líka --- að festa kerfið í sessi. Það er nefnilega rétt sem ég sagði áðan og það hefur ekki verið hrakið, að sá sem borgar skattinn af auðlindinni, ef lagður yrði á skattur --- og hann er þegar kominn á í formi þróunarsjóðsgjaldsins --- hlýtur að eiga hana. Annars þarf hann ekki að borga skattinn. Ef þetta er leiga, þá verður leigan að renna til eigandans sem í mínum huga er fólkið í landinu og það gæti ég fallist á.