Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 12:31:55 (293)

1997-10-09 12:31:55# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[12:31]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég sagði að í umræðunni væri blandað saman hugtökum eins og fiskveiðistjórnarkerfi, eignarhaldi, framsali o.s.frv., þá átti ég að sjálfsögðu við umræðuna í þjóðfélaginu. Á fundinum í gærkvöldi kom mjög skýrt fram að menn hafa ekki skipt þessu nægilega mikið niður rökfræðilega. Umræðan á sér nefnilega stað víðar heldur en hér á Alþingi og hún er mjög mikil úti í hinum dreifðu byggðum landsins. Þar þarf að eiga sér stað rökfræðileg skipting á því um hvað menn eru að tala. Ég held að flestir séu að tala um eignarhaldið, ekki um fiskveiðistjórnarkerfið sem slíkt.

Varðandi það hvort ég styðji þessa þáltill., þá gæti ég stutt hana ef hún væri nákvæmari, ef ég væri ekki um leið að styðja að lagður yrði á skattur. Eins og ég gat um áðan, þá er ég á móti því að þessi skattur renni í ríkissjóð vegna þess að það mundi stórauka hlut ríkissjóðs í atvinnulífinu og þó að menn lofi að lækka skatta á móti, þá hefur annað eins brugðist hjá hv. þingmönnum. Og ég hreinlega treysti ekki hv. þingmönnum. til að fara með enn þá meira af fé almennings og sé þá peninga miklu betur geymda hjá almenningi í landinu heldur en hjá mínum ágætu samþingmönnum á hv. Alþingi. (SighB: Ég tala nú ekki um fjmrh. þinn.)