Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 12:43:43 (296)

1997-10-09 12:43:43# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SighB
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[12:43]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Það er vissulega lofsvert að það skuli vera til einn þingmaður í hinu fjölmenna liði stjórnarþingmanna sem treystir sér til þess að ræða á Alþingi Íslendinga það stærsta pólitíska mál sem þjóðin er að ræða. Fólkið í landinu er að ræða málið sín á milli um þessar mundir, en það er bara einn stjórnarþingmaður sem treystir sér til þess. Hvers vegna? Vegna þess að hroki stjórnarliðsins er slíkur að ráðamenn stjórnarflokkanna hafa ákveðið að þetta mál skuli ekki vera á dagskrá, það er tabú. Þó að þjóðin sé að ræða málið, þá banna þeir sjálfum sér og flokkum sínum að taka þátt í umræðunni. Svipað og um Evrópusambandið. Það ræða allar þjóðir Evrópusambandið og mismunandi áherslur í samskiptum við það nema við Íslendingar. Af hverju ekki? Af því að hrokafullur forsrh. hefur sagt að málið sé ekki á dagskrá. Það skiptir hann engu máli þó að þjóðin ræði veiðileyfagjald og stjórnkerfi fiskveiða. Hann hefur ákveðið að það mál skuli ekki rætt. Þess vegna situr bara einn stjórnarþingmaður hér í þingsal.

[12:45]

En við þennan ágæta stjórnarþingmann vil ég segja að ég þakka honum fyrir að taka þátt í umræðum og hann gerir sér að sjálfsögðu grein fyrir því að þetta mál verður ekki tabú nema fram að næstu kosningum vegna þess að um þetta mál mun þjóðin kjósa í næstu kosningum. Hæstv. forsrh. getur ekki bannað það. Við lifum enn í lýðfrjálsu landi.

Þegar menn tala um að einstaklingar séu að selja hlutafé sitt eða jafnvel veiðitæki eða fyrirtæki sín og að einstaklingur sé kannski að fá fyrir það 30--40 milljónir, hvað er hann þá að selja? Er hann að selja ávöxtinn af ævistarfi sínu? Er ávöxturinn af ævistarfi hans verðlagður svona hátt? Nei, hann er ekki að selja það. Hvað er hann þá að selja? Hann er selja verðmæti sem Alþingi Íslendinga gaf honum. Hann er að selja verðmæti sem voru ekki til fyrir 10 árum. Hann er ekki bara að selja bátinn sinn, fiskverkunarhúsið sitt, veiðarfærin sín. Nei, hann er að selja verðmæti sem voru ekki til fyrir 10 árum og Alþingi gaf honum fyrir ekkert. Þau verðmæti heita afnotaréttur af sameiginlegri auðlind. Hver er meginskylda Alþingis í þessu tilviki? Hún er að sjálfsögðu sú að sjá svo um að sú kynslóð sem tekur við af kynslóð okkar fái í arf frá kynslóð okkar sömu auðlindir og við fengum í arf frá feðrum okkar og forfeðrum. Við getum ekki látið sannast upp á okkur, hv. alþm., að þegar kynslóð okkar gengur út úr húsinu sé hún búin að ráðstafa sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar þannig að þjóðin eigi enga slíka sameiginlega eign eftir og komandi kynslóðir geti ekki tekið þær ákvarðanir sem núverandi kynslóð hefur tekið um ráðstöfun á þeim eignarrétti með lögum frá Alþingi.

Þetta gerum við ekki með þeim hætti sem hv. þm. Pétur H. Blöndal stakk upp á, að afhenda hverjum núlifandi Íslendingi einhver tiltekin hlutabréf í sameiginlegri auðlind og heimila honum síðan að selja þá eign ,,sína`` til einhverra tiltekinna fyrirtækja.

Það er rangt að ekki hafi verið lagðar fram ýmsar hugmyndir um hvernig megi útfæra veiðileyfagjald. Það hefur verið rætt um að taka fast gjald fyrir hvert landað tonn. Það hefur verið rætt um að bjóða heimildirnar út á almennu uppboði, ýmist allar veiðiheimildir sem eru til ráðstöfunar hverju sinni eða viðbót veiðiheimilda hverju sinni o.s.frv. Það skortir því ekki á að menn hafi sýnt fram á ýmis framkvæmdaatriði, þ.e. hvernig megi framkvæma þann vilja að eðlilegt sé að fáir notendur greiði afnotagjald fyrir auðlind í eigu fjöldans. Hvernig stendur á því að menn hafa ekki valið einhverja tiltekna leið í þessu sambandi og lagt málin upp og sagt: svona vil ég hafa það, nákvæmlega svona? Við höfum hvert um sig skoðun á því hvernig eðlilegast væri að koma veiðigjaldi og auðlindagjaldi fyrir. Svarið er mjög einfalt. Það er ekkert vit í því að taka um það endanlega afstöðu, alveg laust við skoðanir manna, hvaða framkvæmd sé eðlilegust og best fyrr en það hefur verið gert sem Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri, segir í grein sinni í Morgunblaðinu í dag, þ.e. að sérfræðistofnanir þjóðarinnar verði látnar meta líkleg áhrif þeirrar leiðar sem valin er. Og það er, með leyfi virðulegs forseta, höfuðsynd stjórnvalda að hafa ekki á öllum þessum tíma kallað til liðs þær sérfræðistofnanir þjóðarinnar eins og Þjóðhagsstofnun, Háskóla Íslands og fleiri aðila til þess að meta hinar ýmsu útfærslur veiðileyfagjalds og gera grein fyrir því hvaða áhrif séu líklegust af hinum mismunandi útfærslum, t.d. á afkomu sjávarútvegs, veiði og vinnslu, á stöðu byggðar í landinu, á afkomu ríkissjóðs, á stöðu sveitarfélaga o.s.frv. Þetta er það stórt og mikið mál sem við erum að ræða um, þ.e. hvernig eigi að framkvæma það réttlætissjónarmið að menn greiði gjald fyrir afnot fárra af auðlind fjöldans að það er skylda ríkisstjórnar og Alþingis að kalla til liðs við þá athugun þær stofnanir sem eru einar færar um að gefa okkur eitthvert álit á því fyrir fram hver séu líklegust áhrif að þeirri framkvæmd sem valin er. Það gerðum við ekki þegar tekið var upp núverandi stjórnkerfi fiskveiða. Þá ákvörðun tók Alþingi án þess að biðja um úttekt á því hvaða áhrif væru líklegust af því kerfi sem tekið var upp, því stjórnkerfi sem tekið var upp, á afkomu sjávarútvegs, á stöðu byggðarlaga og á ,,eignarhaldi á auðlindinni``.

Veiðileyfagjaldið er það stórt mál að við eigum eins og Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri á Grundartanga, leggur til í Morgunblaðsgrein í dag að kalla til þær sérfræðistofnanir sem við höfum yfir að ráða til þess að vega og meta hinar mismunandi útfærslur og gefa alþingismönnum eitthvað til kynna um líkleg áhrif.

Ég lýsi sérstakri ánægju minni með að nýkjörinn rektor Háskóla Íslands lýsti því yfir í ræðu sinni þegar hann tók við störfum að hann teldi að háskólinn hefði brugðist þeirri skyldu sinni að veita fræðilega leiðsögn í málum eins og veiðileyfagjaldsmálum og lagði áherslu á að þeir starfsmenn háskólans sem eru með sérfræðiþekkingu, er þessi mál varðar, skiptu sér meira af umræðunni til þess að lyfta henni upp á hærra plan en hún hefur verið á (Forseti hringir.) og gefa þjóðinni og þjóðkjörnum fulltrúum hennar meiri upplýsingar og betri vitneskju til að byggja skynsamlegar ákvarðanir á.

Það er sérstaklega ánægjulegt, virðulegi forseti, að þessi yfirlýsing skyldi koma frá nýkjörnum rektor háskólans því að þetta sárvantar inn í íslenska þjóðfélagsumræðu.