Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 13:40:56 (298)

1997-10-09 13:40:56# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[13:40]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski eins gott að hv. þm. fái á sig andsvör svo að hann komist oftar upp í ræðustól fyrst misskilningur var með ræðutímann.

Herra forseti. Ræðumaðurinn nefndi sérstaklega að hann saknaði útfærslunnar um sérstakan tekjuskatt á sjávarútvegsfyrirtæki sem er ein af þeim leiðum sem við höfum lagt til. Það er rétt. Það er ekki að finna lengur í tillögunni. Við erum með þrjár útfærslur sem okkur finnst helst koma til greina, þ.e. gjald á hvert úthlutað þorskígildi, uppbót á veiðiheimildum, sérstaklega viðbótaraflaheimildir og dreifa því svo til allra. Hin tillagan gæti vitaskuld komið til álita í þeirri nefndarvinnu sem fer fram ef tillagan verður samþykkt.

Hv. þm. sagðist ekki vera alveg viss um hvað þau samtök vildu sem stofnuð voru í gærkvöldi. Þau vilja mjög einfaldan hlut. Þetta eru samtök um þjóðareign. Það kemur mjög skýrt fram í ávarpi sem þeir fundarboðendur stóðu að og þeir sem völdust síðan til forustu, þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Með lögunum um stjórn fiskveiða og framsali ríkisvaldsins á sameign þjóðarinnar til einstakra manna og félaga án þess að gjald komi fyrir er brotið gegn eignarrétti þjóðarinnar --- horfið frá leikreglum lýðræðis og jafnréttis.``

Ég held að alveg sé augljóst fyrir hverju þessi hópur er að berjast. Hann berst fyrir því að lögin um stjórn fiskveiða, þ.e. að þetta sé sameign íslensku þjóðarinnar, fái að ná fram að ganga í reynd. Að okkar mati er hægt að gera það með veiðileyfagjaldi. Að öðru leyti fjallaði þingmaðurinn einkum um stýrikerfið sem er óháð tillögunni en samt bendi ég honum á í fullri vinsemd að raungengishækkanir, sem hann er ósáttur við á þessu ári, verða meiri á næstu missirum. Ef veiðileyfagjald verður ekki tekið upp munu raungengishækkanir halda áfram og það mun kreppa bæði að sjávarútvegi og öðrum samkeppnis- og útflutningsgreinum.