Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 13:43:37 (299)

1997-10-09 13:43:37# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[13:43]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég sá fundarboð hópsins og ég hef líka lesið viðtöl við nýkjörna forustumenn þar sem þeir segjast ekki berjast fyrir veiðileyfagjaldi og telji það ekki heppilegt. Þess vegna setti ég spurningarmerki við hvað það væri sem samtökin vildu. En látum það vera. Það er allt gott og blessað með það að menn vilji breytingar því að mjög mikil þörf er á að ræða fiskveiðistjórnunina. Mér finnst ekkert óeðlilegt þó að óþol sé í þjóðfélaginu vegna fiskveiðistjórnunarinnar og það er mjög nauðsynlegt að tala um það opinskátt.

Ég gerði fyrst og fremst grein fyrir því í því sem átti að vera inngangur að ræðu að það væri sjálft stýrikerfið sem skipti máli vegna þess að ef við næðum engum fiskveiðiarði þyrftu menn um engan arð að rífast. Það væri stórkostlega mikið atriði að við hefðum stýrikerfi þannig að við hámörkuðum fiskveiðiarðinn. Ég er viss um að svo er ekki við Ísland þrátt fyrir að menn fullyrði að við séum með heimsins besta fiskveiðistjórnunarkerfi. Ég fullyrði að menn séu bara að leggja saman plúsana, neita að taka tillit til mínusanna, þ.e. sóunarinnar, og fái þannig fram þessar tölur. Þess vegna vildi ég byrja á því að gera grein fyrir afstöðu minni til hinna ýmsu stýrikerfa sem getið er um í 3. kafla greinargerðar þáltill.

Vonandi kemst ég að í seinni ræðu minni að taka afstöðu til sjálfrar tillögunnar, veiðileyfagjaldsins.