Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 14:01:55 (307)

1997-10-09 14:01:55# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[14:01]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. lauk ræðu sinni með því að segja: ,,Ég fæ engan botn í það.`` Og það er rétt, málflutningur hans í þessu máli er því miður botnlaus. En ég sagði áðan að ég gerði ráð fyrir því að alþingismenn skiptust í þessu máli a.m.k. í tvo hópa. Annars vegar eru þeir sem verja gjafakvótakerfið vitandi vits vegna þess að þeir eru beinlínis að draga taum tiltekinna hagsmunaaðila. Síðan eru hinir sem ekki hafa nennt að hugsa sig til niðurstöðu í málinu og vita þess vegna raunverulega ekki hvað þeir eru að gera. Um þá sagði ég og vitnaði í helga bók: Guð fyrirgefi þeim því þeir vita ekki hvað þeir gjöra. Og það er jú ekki nema kristilegt hugarfar.

Hv. þm. er í ræðu sinni og þessum andmælum að segja: Fiskveiðistjórnarkerfið er vitlaust. Já, já, það getur vel verið að það sé vitlaust og það hefur auðvitað mjög alvarlega galla. En það er alveg sama hvaða fiskveiðistjórnarkerfi við notum, hvort við notum aflamarkskerfið, hvort við notum sóknarmarkskerfi, hvort við notum skrapdagakerfi eða hvaða annan bastarð af málamiðlunum milli þessara kerfa. Það breytir ekki því sem er kjarni málsins í þeirri tillögu sem við hér erum að fjalla um. Hún er um það að Alþingi láti ekki líðast lengur að einokunargróða, sem Alþingi hefur lögbundið að skuli vera með ókeypis aðgangi að takmarkaðri auðlind, verði úthlutað forréttindahópum í þjóðfélaginu, heldur verði tryggt að farið verði að lögum og réttlæti, bæði um að virða sameign þjóðarinnar, virða eignarrétt þjóðarinnar á auðlindinni og að tryggja að eigandinn fái réttmætan arð í sinn hlut. Hann verði ekki hlunnfarinn eilíflega eins og gerist í núverandi kerfi.