Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 14:04:08 (308)

1997-10-09 14:04:08# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[14:04]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort hv. 9. þm. Reykv. hefur átt við mig eða aðra þingmenn þegar hann leyfði sér af alkunnu og þjóðkunnu lítillæti sínu að tala um að þeir sem væru ekki sammála honum væru það vegna þess að þeir væru svo latir að þeir hefðu ekki nennt að hugsa sig í gegnum málið. Það kann auðvitað vel að vera að tyftunaraðferðir af þessu tagi hafi borið góðan árangur þegar hv. þm. stýrði skóla hér fyrr á öldinni, en þetta er ekki málflutningur sem leiðir menn til niðurstöðu. Og ég vísa svona tali á bug fyrir hönd allra þingmanna, hver svo sem hann er sem hann kann að hafa átt við.

Veruleikinn er sá að á Alþingi hafa verið flutt tvö frumvörp sem breyta einhverju í þessu máli. Það eru frumvörp hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar varðandi skattmeðferð þessara mála sem dreift var hér í gær eða fyrradag og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og fleiri um að taka framsalið og leigubraskið úr kerfinu og bannað það. Það eru í raun og veru þau mál sem einhverju geta breytt. Till. til þál. tekur ekki á þessu máli, hún gerir það ekki. Og ef menn vilja taka á þessu máli í raun, þá eiga þeir að flytja frv. til laga um útfærslu á þessu máli í smáatriðum. Þangað til menn hafa gert það eiga þeir ekki að bera öðrum þingmönnum á brýn að þeir nenni ekki að hugsa því að það er ekki svo.