Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 14:09:58 (311)

1997-10-09 14:09:58# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[14:09]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. sagði: Einokunargróða á að skattleggja. Það er nú það. Og hvernig hefur gengið að skattleggja einokunargróðann? Er hv. þm. ekki kunnugt um það? Sannleikurinn er sá að þau stóru fyrirtæki, hlutafélög á verðbréfamarkaði Íslands sem smám saman eru að öðlast de facto eignarhald á auðlindinni í skjóli pólitísks valds, borga enga skatta, engin gjöld til sveitarfélaga fyrir alla þá þjónustu sem þau veita og því sem næst enga skatta til ríkisins. (SvG: Þá verður samþykkja málið hans Friðriks. Þá er málið leyst.) Og sannleikurinn er sá að miðað við óbreytt ástand og afskriftarétt á gjafakvótunum, þá munu þessi fyrirtæki enga skatta borga. Þá segir hv. þm.: Þá verður að breyta skattalögum. Sannleikurinn er sá að það er ekki tæknilega gerlegt að breyta skattalögum til þess að taka þennan einokunargróða með árangursríkum hætti til þess að fullnægja réttlætinu. Og þá er að því komið að ég skil ekki, hvernig á því stendur um þennan ágæta hv. þm. að hann skuli ekki koma auga á, einmitt í þessari skattaumræðu, að hún snýst um það nú að taka upp í auknum mæli auðlindagjald fyrir þjónustuna, fyrir aðganginn að auðlindinni, þegar það er ríkið sem takmarkar aðganginn að henni. Það eigum við að gera varðandi takmarkaðan aðgang að sjávarútvegsauðlindinni og það eigum við að gera að því er varðar takmarkaðan aðgang að takmörkuðum auðlindum okkar, orkuauðlindinni. Og hvað eigum við að gera á móti? Við eigum þar á móti að draga úr skattlagningu (Forseti hringir.) á vinnuframlag vegna þess að við sitjum uppi með þá staðreynd að við erum með ónýtt tekjuskattskerfi sem hvílir sem þung byrði á tiltölulega fámennum hópi (Forseti hringir.) lág- og miðlungstekjufólks með þunga framfærslubyrði. Við eigum að taka auðlindagjald og orkuskatta og einmitt umhverfisverndaroríenteraða skatta eins og ég er alveg (Forseti hringir.) sannfærður um að hv. þm. er sammála mér um, til þess að draga úr skattbyrðinni á almenning og það er eina leiðin til þess að koma í veg fyrir sívaxandi ójöfnuð í þessu nýkapítalíska þjóðfélagi.