Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 14:26:33 (316)

1997-10-09 14:26:33# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[14:26]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Nú fara menn að verða gamansamir. Það er ekkert víst að það sé einokunargróði. Ef við værum t.d. með sóknarmark og úthlutuðum fiskidögum eins og Færeyingar við bolfiskveiðarnar kæmi það þeim dugmestu best og þannig fengi þjóðin óbeint hámark af arðinum. Það lægi alveg fyrir. Þannig mundum við hámarka arðinn af þorskveiðunum við Ísland því að það mundi flytjast til þeirra manna sem gætu náð fiskinum á sem ódýrastan hátt, reru frá þeim verstöðvum sem lægju best til róðra. Engin ástæða er til þess að fullyrða að þetta þurfi endilega að vera einhver einokunargróði. Það er alls ekki.

Hins vegar erum við það heppnir að við höfum jafnframt því að vera með þetta kvótakerfi allan tímann haldið í það að stjórna flotanum líka og ekki gefið eftir með það þannig að við höfum verið að minnka flotann. Þannig stendur á núna að við erum með tiltölulega lítinn flota sem getur stundað og tekið þátt í veiðum á uppsjávarfiski. Hann er það rúmur að það hentar honum vel að reyna við þessar síldveiðar. Þess vegna getum við gert tilraun með hann.