Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 14:30:15 (318)

1997-10-09 14:30:15# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[14:30]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég neyðist nú til þess að rifja það upp að kvótakerfi við þorksveiðar, við skulum halda okkur við bolfiskinn, var tekið hér upp á Alþingi vegna þess að menn töldu að það væru neyðarástæður, bolfiskurinn væri í útrýmingarhættu og það yrði að skera veiðarnar stórkostlega niður. Þess vegna tókum við upp þetta kerfi. Því miður hefur okkur ekki tekist allan þenna tíma að byggja upp þorskstofninn. Við höfum verið í hreinustu vandræðum með þetta kerfi. Stofninn hefur ekki vaxið. Við erum nú að veiða 200 þús. tonn á ári, 370 þús. tonn var meðalaflinn 70 árin þar á undan, áður en þetta kerfi var tekið upp. Fyrir þessar sakir hefur landsbyggðin, þorpin sem byggja afkomu sína á bolfiskveiðunum, þurft að líða óskaplega. Þeim er við það að blæða út mörgum hverjum. Ef það gerist, herra forseti, að okkur tekst að rétta úr kútnum, ef okkur tekst að ná auknum arði úr bolfiskveiðunum, úr þorskveiðunum, þá munu þessi þorp rétta við. Þá munu hús kannski fá eitthvert verðgildi í þorpunum, þá munu menn kannski sjá sér fært að lifa þar. Þann dag sem sjávarútvegsþorpin vítt um landið eru ekki í lífshættu vegna afkomu sjávarútvegsins --- þann dag er allt í lagi að hafa áhyggjur af því að arðurinn í fiskveiðunum sé að sprengja upp efnahagslífið. Það er svo af og frá að arðurinn í bolfiskveiðunum sé að sprengja upp þetta kerfi, sprengja upp jafnvægið í efnahagsmálunum, standi fyrir því að raungengi sé að fara upp. Það er af og frá. Við höfum allar tölur um það. Bolfiskveiðarnar og vinnslan eru rekin með bullandi tapi. Við höfum allt aðrar aðferðir til þess að slá á þenslu ef hún er einhver. Við höfum allt aðrar aðferðir til þess að forða að raungengið (Forseti hringir.) fari upp heldur en að leggja skatt á þessi fyrirtæki.