Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 14:35:45 (321)

1997-10-09 14:35:45# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[14:35]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það verði seint sagt um hv. 3. þm. Vestf. að hann tali ekki hreint út héðan úr þessum ræðustól. En ég get líka tekið undir það sem hann sagði hér áðan að óvarleg umræða um sjávarútveg er hættuleg. Hún skapar óöryggi í greininni og slík umræða er greininni til óþurftar. Þess vegna kom mér á óvart að hv. þm., í allri þessari umræðu sem hann er að reyna að hafa á settlegum nótum og gæta þess að lenda ekki öfganna á milli, skyldi fullyrða að það fiskveiðistjórnarkerfi sem sjávarútvegurinn byggir á sé handónýtt. Því þurfi að kasta fyrir róða. Ef það er ekki óvarleg umræða að kasta því kerfi sem sjávarútvegurinn byggir á fyrir róða þá veit ég ekki hvað er óvarleg umræða. En því miður er það nú svo um þessa umræðu sem flesta aðra að hér fá öfgarnar yfirleitt að ráða, menn tala hér sitt hvorum megin, á sitt hvorri línunni án þess að nálgast efnið skynsamlega. Þess vegna fer ég þess á leit við hv. þingmann, sem er nú vanur að tala skýrt og skorinort úr þessum ræðustól, að hann í fyrsta lagi upplýsi hvað hann eigi við þegar hann kallar að fiskveiðistjórnarkerfið sé ónýtt, þ.e. hvort ástæða sé til þess að henda því og það sé ekki óvarleg umræða, og hitt, hvaða kerfi hann vilji taka upp í staðinn.