Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 14:39:48 (323)

1997-10-09 14:39:48# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[14:39]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er enn komin til umræðu tillaga þingflokks jafnaðarmanna um veiðileyfagjald. Ég fagna því að hún er komin fram aftur og vil byrja á því að láta í ljós vonbrigði með að það skuli fyrst og fremst vera stjórnarandstæðingar sem hérna tala með einni ágætis undantekningu þó, nefnilega hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni. (Gripið fram í: Tveimur.) Tveimur? Hv. þm. Pétur H. Blöndal talaði einnig í morgun, ég biðst afsökunar á því, það fór fram hjá mér.

Ég held að það hafi ekki farið fram hjá neinum að í þjóðfélaginu ríkir mikil ósátt um það fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við. Það er vissulega von mín að okkur takist að leysa þau vandamál sem nú eru uppi og að stjórnarandstöðunni a.m.k. takist að ná saman um einhvers konar almennt auðlindagjald eða hvað svo sem það verður á endanum kallað. En frá því að þessi tillaga var rædd á síðasta þingi hefur ýmislegt athyglisvert gerst að mínu mati. Vil ég þar fyrst nefna nýstofnuð þverpólitísk samtök, þjóðarsamtök, sem voru stofnuð núna í síðustu viku, og ég hef fengið tækifæri til að fylgjast með alveg frá byrjun þó að ég hafi ekki getað setið stofnfundinn. Þarna tel ég að sé kominn mjög mikilvægur vísir að markvissri umræðu. Það eru mjög margir óánægðir með kerfið, og ég skal ekkert spá því hvort þarna næst niðurstaða um einhvern einn farveg fyrir málið en ég held að þarna sé mjög merkilegt fyrirbæri á ferðinni sem ætti vonandi að hafa áhrif á umræðuna hér á Alþingi.

Hitt atriðið sem ég vil nefna sérstaklega er að bandaríska þingið hefur skipað nefnd til þess að gera úttekt á bandaríska kvótakerfinu við stjórn fiskveiða. Það eru einkum og sér í lagi vinnubrögðin, hvernig bandaríska þingið vinnur, sem ég vil vekja athygli á, nefnilega þeirri aðferð að þingið biður rannsóknarráð Bandaríkjanna að skipa nefnd. Þarna sést vel að vinnubrögðin eru þau að reynt er að fá sem víðsýnustu aðila alls staðar að úr heiminum til þess að fjalla um málið í staðinn fyrir þau vinnubrögð sem hér tíðkast, að vera alltaf að ræða um þessi mál þar sem hagsmunaaðilar ráða langmestu. Ég tel að Alþingi ætti að skoða þetta fordæmi og vil reyndar benda tillögumönnum á að það væri ekki óeðlilegt að í stað þess að Alþingi skipaði þessa nefnd væri fenginn aðili eins og t.d. Rannsóknarráð Íslands til að koma að skipan slíkrar nefndar.

Ég vil einnig taka undir það sjónarmið sem hér kom fram áðan hjá hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni að gróðinn, fiskveiðiarðurinn, er sköpunarverk stjórnmálamanna. Það er svo sem allt ágætt um það að segja ef stjórnmálamenn búa til mikinn arð, ýmsar tölur eru nefndar. Þá á ég við að þessi gróði skapast fyrst og fremst við það að fiskimiðunum er lokað, þ.e. auðlindin er takmörkuð og við það rýkur verðið á kvótanum auðvitað upp. Stundum er talað um að munurinn á virði veiðiheimildanna geti verið allt frá 30 milljörðum upp í 200. Annars vegar er kerfi sem er í jafnvægi og hins vegar kerfi þar sem um takmarkaða auðlind er að ræða.

Þetta var ákveðið af Alþingi 1983 og ég hef einmitt út af öðru þingmáli verið að kynna mér þá umræðu. Það var í raun og veru með ólíkindum hvernig þessi umræða var hér á Alþingi því það var eiginlega heimild til ráðherra til þess að gera eitthvað til reynslu í ákveðinn tíma. Það er alveg augljóst mál held ég að þeir alþingismenn sem stóðu að þessari ákvörðun 1983 hafa ekki gert sér grein fyrir hvert sú ákvörðun leiddi.

[14:45]

Það er alveg ljóst að árið 1983 þegar kerfið var samþykkt, þá var það gert til þess að vernda auðlindina og að koma í veg fyrir að fiskiskipastóllinn stækkaði. Við vitum að öll þau markmið hafa ekki náðst. Sá mikli arður sem hefur skapast hefur ekki skapast vegna þess að þetta sé svo ofsalega arðbært kerfi heldur vegna þess að það er búið að loka auðlindinni fyrir öðrum og þá myndast bara lögmál framboðs og eftirspurnar. Þarna er núna orðin svo mikil óánægja vegna þess að fiskveiðiarðurinn situr í höndum örfárra aðila sem fá þessari auðlind úthlutað frítt á grundvelli veiðireynslu nokkurra ára og síðan selja þeir þetta sín á milli og njóta góðs af. Eins og við vitum benda ýmsir dómar til þess að þarna sé virkilega komin þörf á að líta á þetta mál í heild sinni, dómar bæði í sambandi við veð, við arf, við skilnaðarmál o.s.frv. þannig að það er alveg ljóst að þessi mál verður að skoða. Þó að við kvennalistakonur höfum ekki verið talsmenn þeirrar fiskveiðistjórnunar sem hérna ríkir núna eða þessa kerfis þá hefur landsfundur okkar, eins og fram kom í okkar máli á síðasta þingi, samþykkt að styðja hugmyndina um veiðileyfagjald sem eiginlega minnstu ásættanlegu aðgerð til þess að hægt sé að una við það kerfi sem nú ríkir. Þess vegna styðjum við kennalistakonur þessa tillögu, ekki síst vegna þess að hún ætti þá að verða til þess að málið yrði skoðað. Þetta er bara tillaga um að setja niður nefnd sem skoði þessi mál út frá sem flestum sjónarmiðum.

Herra forseti. Tíminn er mjög stuttur hér nú, en ég ætla ekki að eyða miklum tíma í að ræða málflutning útgerðarmanna sem hefur verið alveg með ólíkindum í þessu máli og ég verð að koma að því í minni seinni ræðu og ýmsu fleiru sem ég vil koma hér að. En það er náttúrlega alveg ljóst að á átta mínútum er ekki hægt að segja mjög mikið um þessi mál.