Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 14:52:01 (328)

1997-10-09 14:52:01# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[14:52]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er slæmt við þessa umræðu að þeir menn hverfa úr salnum sem áður eru búnir að gefa tilefni til þess að beðið er um orðið, en þannig fór fyrir mér þegar hv. þm. Svavar Gestsson talaði áðan. Ég treysti því þó að hann sé að hlýða á mitt mál á sinni skrifstofu þó að hann sé ekki hér eða þá að hans flokksmaður sem hér er viðstaddur komi til hans skilaboðum.

(Forseti (GÁ): Þingmaðurinn er í húsinu upplýsir forseti.)

Þingmaðurinn er í húsinu já. Kannski hann mæti í salinn. (StG: Hann er að hlusta.) Þingmaðurinn er í húsinu og er að hlusta er hér upplýst af formanni iðnn. og við skulum bara treysta því að svo sé.

Hv. þm. kom hér í ræðustól og benti okkur á að þessi tillaga sem hér er til umræðu snerist ekki um það að sníða agnúa af kvótakerfinu. Fyrir honum virtist það vera algjör uppgötvun að tillagan snerist ekki um það. Fyrir okkur var það hins vegar alveg ljóst allan tímann. Hún snýst ekkert um það. Þessi tillaga snýst nefnilega ekkert um kvótakerfið. Þessi tillaga snýst um veiðileyfagjald og það er allt annað mál. Þessi tillaga snýst ekki um stjórnkerfi fiskveiða. Hún snýst hvorki um að breyta því né heldur að sníða af því agnúa og þær ágætu tillögur sem hann nefndi hér áðan frá alþýðubandalagsmönnum og okkar tillögur jafnaðarmanna um breytingar á stjórnkerfi fiskveiða eiga alveg jafnt við þó þessi tillaga verði samþykkt. Hún breytir engu um það þó það væri komið á veiðileyfagjald. Hún breytir engu um það vegna þess, eins og hér hefur verið rætt um fyrr í dag, að þau réttlætisrök sem hér eru stærst eiga við svo lengi sem við þurfum að stjórna okkar fiskveiðum, svo lengi sem auðlindin er lokuð fyrir öðrum en fámennum hópi. Svo lengi sem við þurfum að skammta aðganginn einhvern veginn þá eiga þau réttlætisrök við sem heimta að veiðileyfagjald sé lagt á. Málið er ekki öllu flóknara.

Hins vegar er rétt að ræða nákvæmlega það sem hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir kom ágætlega inn á áðan. Hún sagði okkur að það hefði verið niðurstaða Kvennalistans að kvótakerfi með veiðileyfagjaldi væri þó skárra en kvótakerfi án veiðileyfagjalds. Það er nefnilega alveg laukrétt. Ég hef margsagt það og ég get sagt það einu sinni enn að ég skil ekki þá menn sem skilyrða stuðning sinn við veiðileyfagjald, fiskveiðistjórnunarkerfi. Ég skil það ekki. Vegna þess að óréttlátt fiskveiðistjórnunarkerfi, eins og mörgum finnst kvótakerfið vera, verður ekkert betra þó að ekki sé veiðileyfagjald. Það er réttlátara ef gjaldið er með einfaldlega vegna þess að þá fær eigandinn þó eitthvað fyrir sinn snúð. Og líka hitt að við staðfestum þannig eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni sem veitir nú ekki af miðað við það sem hér hefur verið rakið svo prýðilega, m.a. af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni þ.e. hvernig sú vissa margra hér styrkist á því, og það er auðvitað það sem stefnt er að, að auðlind sú sem á að vera auðlind þjóðarinnar sé smám saman að verða eign þeirra sem fengu úthlutað nýtingarréttinum.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson talar um að veiðileyfagjaldið yrði bara skattur ofan á rangt kerfi. Það getur vel verið að það sé hans viðhorf að þetta sé skattur ofan á rangt kerfi. En eins og ég sagði áðan þá er það þó réttlátara þannig. Og af því að hann ræddi svolítið um skattinn og hverjir greiddu hann og hans niðurstaða varð auðvitað sú að á endanum greiðir fólkið í landinu skattinn, þá snýst þetta auðvitað um tekjuskiptingu. Auðvitað snýst þetta um tekjuskiptingu. Þetta snýst um skiptingu þess arðs sem verður til og spurningin er þessi: Finnst okkur réttlætanlegt að þeir sem fengu úthlutað veiðiheimildum og eigendur fyrirtækjanna njóti arðsins einir eða á fólkið í landinu að fá sína hlutdeild í honum líka?

Það var líka rætt um það áðan að við þyrftum að hámarka arðinn, að við þyrftum þó að búa til eða búa við þess háttar kerfi að einhver arður yrði til og mér heyrðist hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson vera nokkuð viss um að það væri einmitt sóknarmarkið sem væri líklegast til þess. Það má vel vera að í vel útfærðu sóknarmarki gerist það, það má vel vera. Við þekkjum það ekki, við höfum kannski ekki skoðað það nægilega vel. Við höfum hins vegar samanburð í smábátakerfinu, annars vegar á þeim smábátum sem eru á sóknarmarki og hinum sem eru á aflamarki og þar er alveg augljóst hvort er arðsamara. Það er miklu meiri arðsemi hjá þeim sem eru í aflamarkinu. Þeir nýta mun betur sína möguleika. Það er þannig. Þetta hefur komið fram og þetta er hægt að skoða nánar ef menn vilja. En það getur vel verið að það sé vegna þess að aðstæður þarna eru svo einstakar, en þannig er þetta.

Nei, herra forseti. Við erum að tala um að það muni myndast verulegur arður af nýtingu fiskstofnanna. Við erum að tala um það ef stjórnun veiðanna er skynsamleg. Auðvitað eigum við að hafa hér skynsamlega stjórnun. Og við vitum að þessi arður er orðinn umtalsverður hvað svo sem menn vilja nú vorkenna sjávarútveginum og gera hann að ómaga enn á ný. Það er umtalsverður arður. Nú þegar sjáum við þennan arð. Hann birtist í þeirri sölu sem þegar á sér stað og kaupum á veiðiheimildum. Og hann fer vaxandi. Það sjáum við bæði á verðinu og eins á verði hlutabréfa í tilteknum sjávarútvegsfyrirtækjum, ekki síst þar sem þáttur útgerðar er sterkur.

Svo í lokin, herra forseti. Mér finnst það alveg skelfilegt þegar menn koma hér upp og reyna að gera sjávarútveginn aftur að þeirri grátkonuatvinnugrein sem hann eitt sinn var. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að sjávarútvegurinn stendur undir sjávarbyggðunum úti um landið. Þess vegna byggðust þær. Þannig hefur það verið. Þannig mun það verða áfram. Þær byggðir sem liggja vel við miðum og halda vel á sínum málum munu standa ef þeim tekst að halda fólkinu sínu. Það er hins vegar ekki víst. Og spurningin sem ræður því er ekki hvort við erum með sóknarmark eða aflamark og veiðileyfagjald mun ekki ráða því heldur. Þar eru allt aðrir hlutir að verki og það er beinlínis ómerkilegt að hengja það allt á stjórnkerfi fiskveiða, hvort fólk flytur frá sjávarbyggðunum eða ekki. Það er einfaldlega miklu flóknara mál en hægt sé að gera það.

Það er rétt að sjávarútvegurinn stendur undir stórum hluta af okkar útflutningstekjum en hann stendur ekki undir öllu og við skulum horfa á það þegar við erum að tala um sjávarútveginn að við erum annars vegar að tala um auðlind, við erum að tala um fiskimið sem eru einhver þau auðugustu í heimi, og hins vegar erum við að tala um þekkingu og það er blandan af þessu tvennu sem skiptir máli. Nú í dag eftir að sjávarútvegurinn hefur rétt úr kútnum, og það hefur hann gert og er orðinn alvöruatvinnugrein, er mun algengara að fólk með menntun og metnað sæki um vinnu innan sjávarútvegsins og vilji vera þar. Meðan við tölum og ef við tölum sjávarútveginn niður, þá eru meiri líkur til þess að þetta fólk hverfi aftur frá og þá verður þessi blanda af auðlind og þekkingu ekki sú sem hún á að vera.