Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 15:01:00 (329)

1997-10-09 15:01:00# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[15:01]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Frá Þjóðhagsstofnun liggja fyrir mjög ítarlegar og mjög vel sundurliðaðar upplýsingar um stöðu íslensks sjávarútvegs. Engin ástæða er til þess að efast um þær. Þar kemur mjög skýrt fram að afkoman er mjög mismunandi. Gríðarlega mikil arðsemi og mikil framleiðni er núna í mjölvinnslu og afurðum uppsjávarfiska. Einnig eru miklir erfiðleikar alls staðar á bolfiskmörkuðunum, það eru miklir erfiðleikar í útgerð á bolfiski, það eru miklir erfiðleikar í vinnslu bæði í hraðfrystiiðnaðinum og saltinu. Það er fullkomlega út í hött, herra forseti, þótt skýrt sé frá því réttilega að þessi atvinnugrein, bolfiskveiðar og vinnsla, standi illa að segja að það sé sama og að tala einhverja atvinnugrein niður eins og einhver grátkona. Ef menn þora ekki að horfast í augu við það sem er að gerast og segja frá því hvort það sé gott eða vont til hvers eru menn þá að tala? Það er staðreynd að þorskveiðarnar hafa verið dregnar mjög saman. Þeir landshlutar, sem lifðu fyrst og fremst á þorski, þegar við veiddum eins og ég gat um áðan 370 þús. tonn af þorski að meðaltali í 70 ár, hafa mátt þola miklar búsifjar. Það hefur komið mjög niður á þeim byggðum. Það er ekkert verið að gráta eða væla yfir því. Það er verið að segja frá staðreyndum. Það er innlegg í málið. Það er atvinnugrein eins og bolfiskveiðar og vinnsla sem sannanlega er með taprekstri samkvæmt öllum upplýsingum, er með miklum taprekstri og í miklum erfiðleikum. Það er fullkomin ósvífni í garð allra þeirra sem lifa á þeim atvinnuvegi, það er fullkomin ósvífni (Forseti hringir.) í garð allra þeirra sem lifa í þeim byggðarlögum sem eiga afkomu sína undir honum að segja: Nýr skattur --- það er bara betra.