Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 15:03:23 (330)

1997-10-09 15:03:23# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[15:03]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er afkoman misjöfn. Auðvitað er hún misjöfn enda kom ekki fram í máli mínu, herra forseti, að afkoman væri ekki misjöfn. En mér finnst alltaf jafnmerkilegt þegar rætt er um veiðileyfagjald á Alþingi að menn tala um hvað bolfiskvinnslan eigi bágt. Þetta eru fastir liðir. Hv. þm. sem svo tala virðast ekki enn hafa áttað sig á því að bolfiskvinnslan í landinu fær ekki veiðileyfi og borgar þar af leiðandi ekki veiðileyfagjald en hún er alltaf notuð. Við erum að tala um útgerðina í landinu og við erum eðlilega líka að horfa á það á hvaða verði veiðiheimildirnar ganga kaupum og sölum. Það segir allt sem segja þarf í þessu máli. Það segir okkur bæði hversu mikill arður er til staðar og hvað menn eru tilbúnir til að borga. Það segir okkur líka nokkuð um það hverjar væntingar manna eru gagnvart framtíðarhagnaði í greininni. Einfaldlega vegna þess að ef menn sæu ekki framtíðarhagnað þá væru menn ekki að fjárfesta í kvóta fyrir þær upphæðir sem þeir gera eða eru menn að halda því fram að útgerðarmenn geti ekki haft vit fyrir sér sjálfir með þetta? Verðið ræðst nefnilega á frjálsum markaði. Þannig er það í dag. Það er alveg rétt að ýmsir staðir hafa orðið illa úti vegna þess að þorskurinn hefur ekki verið jafnmikill á undanförnum árum eins og hann var áður fyrr. En sveiflur hafa alltaf verið í sjávarútvegi, alltaf, ævinlega, og staðir og fólk og fyrirtæki hafa allan tímann þurft að aðlaga sig. Það hefur sjávarútvegurinn þurft að gera frá öndverðu. Hann er enn að því og hefur staðið sig aðdáunarlega.