Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 15:17:07 (334)

1997-10-09 15:17:07# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[15:17]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. fór nokkrum orðum um leiðirnar sem við leggjum til. Hann nefndi fyrstu leiðina sem eins kom skýrt fram hjá mér að er sú einfaldasta eins og stendur í tillögunni og er framhald á þróunarsjóðsgjaldsleiðinni því að það er vísir að veiðileyfagjaldi með þróunarsjóðsgjaldinu. Þróunarsjóður er hins vegar annar hlutur þó að hægt sé að útfæra hann á þennan hátt. Hann hefur ákveðin verkefni, úreldingu aðallega og fjármögnun hafrannsóknaskips að hluta nú nýverið. Þetta gjald mun síðar falla niður. Þessi leið hefur þann kost að vera sú einfaldasta. Tillagan er ekkert óþarfi eða neitt þess háttar vegna þess að það er bent á kerfi sem þegar er til staðar. Ef menn færu þessa leið mundu þeir hækka þróunarsjóðsgjaldið verulega.

Ef valin er uppboðsaðferðin sem nefnd er þarna, ef allur kvóti yrði boðinn upp þá er búið að leggja niður aflamarkskerfið. Þá er búið að leggja niður kvótakerfið. Það er alveg hárrétt. Menn gætu farið þá leið ef menn kysu svo. Menn gætu líka boðið upp hluta af aflanum ef menn vildu það. Menn þurfa hins vegar að athuga að ef ríkið býður upp allar veiðiheimildirnar á frjálsum og opnum markaði þá tekur ríkisvaldið um leið allan fiskveiðiarðinn út úr greininni því að menn munu bjóða í veiðiheimildirnar eins mikið og væntanlegur hagnaður verður ef þetta yrði gert árlega. Menn verða að hugsa það alveg til enda og það er þess vegna m.a. sem við leggjum ekki til eina leið heldur höfum þetta form, þ.e. að við bendum á þessar þrjár leiðir sem eru einfaldastar, skýrastar og hafa kosti í för með sér, ekki hvað síst uppboðsleiðina af því að hún heimilar nýjum mönnum aðkomu að greininni sem er lokuð núna. Það hefur kosti. Það er hins vegar hægt að velta fyrir sér ... (Gripið fram í: Hvernig varð Samherji til?) Samherji varð til áður en greinin lokaðist vegna þess að þeir fengu kvóta úthlutað, keyptu sér viðbótarkvóta og hafa síðan bætt við sínar veiðiheimildir.

Við höfum bent á þá leið að bjóða upp norsk-íslenska síldarstofninn. Það er tiltölulega einföld aðferð. Það er þess vegna, herra forseti, sem við í þessari útfærslu viljum gjarnan að fleiri menn komi að útfærslunni eins og við leggjum til.