Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 15:31:53 (342)

1997-10-09 15:31:53# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[15:31]

Kristján Pálsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er eins og að halda því fram að vatnið renni upp í móti að halda áfram orðræðu við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson. Hann virðist ekki geta skilið það sem ég sagði. Ég sagði að samkvæmt þessum lögum hefði verið heimilt að veðsetja aflaheimildir með skipi. Það er þannig. En að sjálfsögðu er bannað að veðsetja aflaheimildir einar og sér. Það hefur heldur aldrei verið leyfilegt, það hefur aldrei verið gert því að aflahlutdeild, kvóti, hefur alla tíð þurft að fylgja skipi. Enginn hefur getað fengið úthlutað afla öðruvísi en að eiga útgerð. Þess vegna var þessi möguleiki aldrei til staðar.

Ég skil samt ágætlega að hv. þm. vilja hanga á þessu eina ákvæði, hæstv. forseti, því að hann er í slæmum málum með afgreiðslu sína frá síðasta þingi að hafa samþykkt að veðsetja aflaheimildir eins og raun ber vitni. Allir fjármálamenn, sem talað er við í dag, eru sammála um að þessi eina aðgerð hafi gert þeim kleift að koma öllum veðsetningarmálum sínum í lag gagnvart útgerðinni. Ég ráðlegg hv. þm., herra forseti, að lesa aftur lögin og fara yfir þau með lögmönnum og hæstaréttarlögmönnum ásamt lagaprófessorum sem kynntu sér þetta.