Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 15:34:06 (343)

1997-10-09 15:34:06# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[15:34]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Menn eru mjög áminntir um sannsögli og deila um það hvað Alþingi hafi gert, hvort það hafi heimilað veðsetningu veiðiheimilda eða kannski komið í veg fyrir þær. Ég verð að segja það, áminntur um sannsögli, að það er alveg nákvæmlega rétt hjá hv. þm. Kristjáni Pálssyni að Alþingi hefur ekki komið í veg fyrir veðsetningu veiðiheimilda. Þær eru veðsettar og það var fyrst og fremst aðgerð í þágu bankakerfisins en það er óumdeilanlegt að veiðiheimildir eru veðsettar.

Þá kem ég hér, virðulegi forseti, áminntur um sannsögli, til þess að ræða um skatta sjávarútvegsfyrirtækja. Ég geri mun á sköttum og þjónustugjöldum og það er alveg rétt að sjávarútvegsfyrirtæki greiða einhver þjónustugjöld til hafna. Þá rifjast upp fyrir mér hversu mjög sveitarstjórnarmenn, sem eru svo hamingjusamir að hafa ekki sjávarútveg í byggðarlögum sínum, guma af því hvað þeir telja það mikinn kost í Garðabænum og á Seltjarnarnesinu að þurfa ekki að bera þann kross. Ég tók eftir því að hv. þm. sagði: Ég er eiginlega sammála ykkur flm. tillögunnar um að lágmarkskrafa væri að sjávarútvegurinn greiddi þjónustugjöld fyrir útlagðan kostnað almennings í landinu í þágu sjávarútvegsins. Sú upphæð er a.m.k. 3 milljarðar og í rauninni er það svo ef teknar eru með í reikninginn niðurgreiðslur á launum í sjávarútvegi að upphæðin er mun hærri þannig að hv. þm. er þá raunverulega að leggja til þjónustugjald af sjávarútvegi fyrir hærri upphæð en við flutningsmenn tillögunnar leggjum til sem fyrsta skref.

Annað. Borgar sjávarútvegurinn skatta? Ég sagði því sem næst enga. Ég minni á, sjávarútvegurinn er burðarás í atvinnulífi Íslendinga. Hann er 20--25% af samanlagðri þjóðarframleiðslu Íslendinga. Hann leggur til 75% af vöruútflutningi Íslendinga. Hvað borga öflugustu hlutafélögin í sjávarútvegi í skatta á Íslandi, hv. þm.? Það er nánast eins og ég sagði ekki neitt vegna þess að það eru málamyndaskattar þannig að rökin fyrir því að fyrirtækin skili arðinum til almennings í gegnum skattkerfið eru því miður ekki rétt.