Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 15:36:31 (344)

1997-10-09 15:36:31# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[15:36]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað má deila um hvað eru þjónustugjöld og hvað eru skattar og ég get alveg fallist á það með hv. þm. Þetta hafa aftur á móti verið talin gjöld til hafna eins og aflagjöld og gjöld sem snerta skip.

Varðandi þjónustugjald fyrir afnot af auðlindinni þá sagði ég og hef reyndar margsagt það í þinginu að mér finnist eðlilegt að útvegurinn greiði eitthvert gjald til þess að standa undir þeirri þjónustu sem er í kringum hann samfara eftirliti í menntun og rannsóknum. Ég var ekki að segja að ég vildi láta greinina greiða eitthvað miklu hærra en gert er í dag en mér finnst allt í lagi að skoða framhald á því að þau gjöld hækki smám saman. Auðvitað þarf að fara eitthvað eftir getu greinarinnar og ég hygg að flestallir sem fjalla um þetta hér kæri sig ekki um nein gjöld sem kollsigla þessari grein.

Ef við lítum á skattana þekki ég aftur á móti persónulega nokkur fyrirtæki í sjávarútvegi sem hafa greitt mikla skatta í áraraðir og áratugi þó ég upplýsi ekki nákvæmlega þær tölur en sem betur fer eru til mörg slík fyrirtæki í sjávarútvegi, fyrirtæki sem hafa greitt tekjuskatta ef við erum bara að tala um þá.