Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 15:38:17 (345)

1997-10-09 15:38:17# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[15:38]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Dropinn holar steininn, málið þokast hægt og hljótt. Á sínum tíma var miklum erfiðleikum bundið að fá samstarfsaðila okkar í fyrri ríkisstjórn, sjálfstæðismenn, til þess að fallast á þróunarsjóðsgjaldið. Það tókst eftir harðvítugar deilur og það var hænufet í áttina.

Í þessum umræðum hefur það gerst að hv. þm. Kristján Pálsson segir: Ég er sammála flutningsmönnum tillögunnar um að ég tel eðlilegt að sjávarútvegurinn greiði fyrir aðgang að auðlindinni, einkaaðganginn, a.m.k. sem svarar útlögðum kostnaði þjóðfélagsins og það er umtalsverð upphæð þannig að þetta er allt í áttina.

Hinn talsmaður Sjálfstfl., að vísu úr minnihlutahópi þingflokks Sjálfstfl., sóknarmarksmaðurinn hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson segir: Ég er tilbúinn að taka undir með ykkur um að gera nú tilraun með veiðileyfagjald, þ.e. að því er varðar norsk-íslenska síldarstofninn. Það eru sérstök rök fyrir þessu. Við skulum gera þá tilraun.

Bara í þessum umræðum sem hafa nú staðið í nokkra klukkutíma hefur málið þokast nokkuð í rétta átt.

Síðan vil ég, virðulegi forseti, nota tækifærið til þess að vekja athygli á því til viðbótar því sem áður hefur komið fram í sambandi við skatta, að í umræðum um fjárlög kom á daginn, það var hv. þm. Ágúst Einarsson sem benti á það, að í OECD-samanburði um skattbyrði fyrirtækja, að fyrirtæki á Íslandi nú skila til ríkissjóðs tekjum sem eru um helmingur af því sem er meðaltalið af framlagi fyrirtækja í fyrirtækjasköttum í löndunum í kringum okkur. Raunverulega er svo komið að á kreppuárunum léttum við mjög sköttum af fyrirtækjum til þess að verja atvinnustigið. Nú er hins vegar góðæri og nú njóta fyrirtækin þess svo verulega, og ég er ekki bara að tala um sjávarútveginn, að þau eru hálfdrættingar á við fyrirtæki í löndunum í kringum okkur að meðaltali. Þetta er líka innlegg í umræðuna vegna þess að aldrei hefur staðið til af okkar hálfu að skattar séu eitthvað óumbreytanlegt, hvort heldur er hallæri eða góðæri. Þetta eru viðbótarrök í málinu, virðulegi forseti.