Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 15:40:31 (346)

1997-10-09 15:40:31# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[15:40]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Dropinn holar steininn, segir hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson. Ég ætla svo sem ekki að fara í neina sérstaka umræðu um hverjir það voru sem komu þróunarsjóðsgjaldinu á eða komu á gjaldi fyrir eftirlitið. Það voru tvær síðustu ríkisstjórnir sem gerðu það. Hvort það voru tillögur sjálfstæðismanna eða alþýðuflokksmanna get ég látið liggja á milli hluta. Ég ítreka að þessar tillögur hafa verið í gangi í mörg ár og í tillögunni er ekkert nýtt um það sérstaka mál sem ég er að lýsa stuðningi við. Það er sú stefna sem ríkisstjórnin hefur framfylgt á undanförnum árum. Þess vegna sagði ég í umræðunni í upphafi að ef þetta væri sú tillaga sem flutningsmönnum litist best á og væri sennilega farsælasta leiðin þá er hún þegar í framkvæmd. Tillöguflutningur hv. þm. er þess vegna óþarfur.

Þá er eftir spurningin: Hvað á að hafa gjaldið hátt? Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað og ég er ekki tilbúinn til þess að segja að sjávarútvegurinn geti borgað miklu meira í dag en auðvitað er það mjög mismunandi eftir greinum og uppsjávargreinarnar standa verulega vel í dag sem betur fer.