Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 15:42:20 (347)

1997-10-09 15:42:20# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[15:42]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Umræðurnar áðan um veð eða ekki veð á aflaheimildum sýna glöggt á hvaða stigi umræðan er í þinginu. Hvað á þjóðin að halda sem hlustar á umræðurnar ef þingmenn skilja ekki einum skilningi þá löggjöf sem þeir setja, hvernig eiga þeir sem sitja heima og hafa ekki þau gögn sem við höfum þó við höndina að geta áttað sig á um hvað málið snýst? Satt best að segja er mjög sorglegt að það þurfi að koma til úrskurðir dómstóla við hvert einasta atriði til þess að fá á hreint hvað löggjafinn er að gera í málinu. En það er ekki ætlun mín að ræða meira um veðsetningu á aflaheimildum og ég ætla einnig að sleppa því að ræða um aðferðir útgerðarmanna til þess að reyna að fæla fólk frá hugmyndinni um veiðileyfagjald. Ég vil því enn og aftur nefna skýrslu sjútvrn. frá því í vor og ráðstefnu sem var haldin um hana norður á Akureyri en það er alveg ljóst og skyldi engan undra að útgerðarmenn reyna allt til þess að halda forréttindum sínum. Öll umræðan undanfarin ár hefur gengið út á það hvernig þeir geta haldið forréttindum sínum undir því yfirskyni að verið sé að vernda auðlindir.

Mig langar aðeins að snúa upp öðrum fleti á málinu. Ég er einmitt nýkomin af ráðstefnu þar sem fjallað var um hvernig auðlindir eru metnar og hvernig er hægt að meta náttúruauðlindir og ýmislegt í þeim dúr. Ég nefni eina auðlind, vatn á Kanaríeyjum. Það er takmörkuð auðlind, og umræðan um hana er núna að fara í nákvæmlega sama farveg og umræðan um sjávarútveginn hér, þ.e. hún er að komast í hendur örfárra aðila sem stórgræða á málinu. En þetta er auðlind sem allir þurfa að nota og þetta er eyja sem á ekki aðra kosti en þá að flytja inn vatn. Ég vil í þessu sambandi ítreka að við Íslendingar horfum út fyrir naflann á okkur, og hleypum fleiri aðilum inn í umræðuna en þeim sem beinustu hagsmuni hafa þannig að víðsýni ráði þeim breytingum sem hér verða gerðar.

[15:45]

Þess vegna er ég ekki sammála hv. þm. Svavari Gestssyni sem sagði hér áðan að það væri ljóður á þessu máli að það er þingsályktunartillaga en ekki lagafrv. vegna þess að ég tel að það þurfi að skoða málið mjög gaumgæfilega í nefnd áður en til lagafrv. kemur. Ég hef haft tilhneigingu til þess að vilja ekki líta á þetta mál sem einangrað frá fiskveiðistjórninni þó að vissulega sé hægt að gera það. Ég vil þess vegna spyrja þingflokk jafnaðarmanna eða flutningsmann tillögunnar hvort það sé réttur skilningur að þingflokkur jafnaðarmanna sé ánægður með núverandi fiskveiðistjórnarkerfi ef veiðileyfagjald verður sett á. Ekki fannst mér heldur koma alveg skýrt fram í þeim umræðum sem ég hef heyrt hvort þingflokkur jafnaðarmanna sé sammála um einhverja eina útfærsluleið á veiðileyfagjaldinu sem kemur fram á þskj. 5.

Ég vil ítreka að ég er alveg sammála þingflokki jafnaðarmanna að einfaldasta leiðin til þess að gera einhvers konar réttlætisleiðréttingu á kerfinu er að koma á veiðileyfagjaldi. En jafnframt finnst mér ófullnægjandi að vita ekki framhaldið, hvað svo? Hvað á t.d. að gera við fiskveiðiþorpin sem missa allar veiðiheimildir sínar ef allur aflakvóti verður boðinn upp? Þess vegna er mjög ófullnægjandi að ræða þetta bara sem eina tillögu og einangraða. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að endurskoða þetta kerfi í heild sinni. Þetta er ekki bara spurning um veiðileyfagjald/ekki veiðileyfagjald. Það þurfi að gera á skrifborðinu fyrst eða á sem víðtækastan hátt þannig að það sé ekki verið að breyta kerfinu og gera tilraunir með fólk og heil byggðarlög þannig að allir líði fyrir einhver hugsanleg mistök.

En það sem mér finnst mjög athyglisvert í þessari umræðu er að hún er allt of mikið bara á milli stjórnarandstöðuflokkanna, því miður. Ég hefði gjarnan viljað sjá mun fleiri fulltrúa frá Sjálfstfl. og einhverja frá Framsfl. tala hér. En það sem kemur mér ávallt mjög mikið á óvart er afstaða alþýðubandalagsmanna til þessa máls. Ég skil alls ekki hvers vegna þingflokkur Alþb. getur sætt sig við að helsta auðlind þjóðarinnar sé látin ókeypis í hendur örfárra aðila, útgerðaraðila. Ég hef hlustað á röksemdafærslu formanns sjútvn., m.a. á áður nefndri ráðstefnu sjútvrh. og hlustað á hans rök, að þetta sé auðvitað mjög flókið mál, en ég get alls ekki séð hvers vegna þingflokkur alþýðubandalagsmanna telur það ekki skref í réttlætisátt að fleiri heldur en nokkrir útgerðarmenn fái að njóta afrakstursins af auðlindinni. Því miður leyfa þingsköp ekki að ég beini hér fyrirspurn til alþýðubandalagsmanna svo að hugsanlega fara þeir í andsvar við mig og þá getum við rætt þetta nánar.

Ég vil aðeins að lokum, herra forseti, ítreka það sem ég sagði áðan í fyrri ræðu minni að um þessi mál hafa verið stofnuð almenningssamtök sem ég bind miklar vonir við að verði til að umræðan hér á Alþingi breytist, ekki síst í stjórnarflokkunum. Að þingmenn fari að hlusta betur á hvað fólkið í landinu vill gera í þessum málum. Og ég er sammála ágætri grein í Morgunblaðinu í dag þar sem segir einmitt að fiskveiðistjórnin sé brýnasta óleysta pólitíska viðfangsefnið sem blasir við stjórnmálum á Íslandi um þessar mundir. Ég er sem sagt þeirrar skoðunar að það sé vandamálið. Ég veit að þingflokki jafnaðarmanna finnst óeðlilegt að blanda umræðunni um veiðileyfagjald við fiskveiðistjórnina, og ég sé alveg möguleikana að ræða það aðskilið, en það er samt sem áður óæskilegt að mörgu leyti nema þá sé búið að sjá algjörlega fyrir hvað gerist næst.