Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 15:56:33 (351)

1997-10-09 15:56:33# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[15:56]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er algjör útúrsnúningur hjá þingmanninum. Ég sagði einmitt að það þarf að vera ljóst hvað fólkið sem nú vinnur við sjávarútveg á að vinna við áður en svona ákvarðanir eru teknar. Ég sé fyrir mér Vestfirði sem paradís t.d. í ferðaþjónustu. Mjög margir Íslendingar vilja alls ekki vinna í fiski og ég hugsa að mjög margir Vestfirðingar yrðu fegnir ef það byðust þarna önnur atvinnutækifæri. Ef hér streymdu inn peningar sem greiðsla fyrir kvótann til þess að byggja upp atvinnustarfsemi út um allt land, þá er ég viss um að Vestfirðingar yrðu manna fegnastir yfir fjölbreyttara atvinnulífi. Þess vegna er það algjör útúrsnúningur að ég sé að segja að mér sé sama um fólkið í landinu. Það er algjör útúrsnúningur. Ég sagði að við yrðum að sjá fyrir hvað gerist næst og þess vegna er ég hugsanlega sammála hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að ég tel erfitt að ræða þetta mál, veiðileyfagjald, algjörlega einangrað.