Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 16:12:54 (353)

1997-10-09 16:12:54# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[16:12]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. sagði að sjálfstæðismenn væru smeykir við umræðuna. Þetta er mjög sérkennilegt þegar hann sjálfur talaði um það að a.m.k. þrír þingmenn Sjálfstfl. hefðu tekið þátt í umræðunni. Ég veit ekki betur en að þingmenn Sjálfstfl. hafi í hvert einasta skipti sem þáltill. hefur komið fram í einhverri mynd tekið þátt í umræðunni og látið í okkur heyra, reyndar á opinberum vettvangi að öðru leyti um málið.

Ég verð hins vegar að játa að ég er ekki smeykur við umræðuna en ég er að verða svolítið ruglaður á henni vegna þess að þær tillögur sem þingmenn jafnaðarmanna og áður Þjóðvaka hafa verið að leggja fram eru að verða býsna ólíkar innbyrðis. Í fyrsta skipti sem málið var rætt vakti ég athygli á því að það skyti skökku við að ræða málið ekki öðruvísi en svo að taka líka með inn í reikninginn hugsanlegt auðlindagjald á aðra hluti eins og til að mynda orkuna í landinu. Þá var því reyndar harðlega mótmælt af tilteknum talsmönnum Alþfl. sem sögðu að verið væri að rugla saman ólíkum hlutum. Ég veitti því hins vegar eftirtekt að á síðasta þingi var þetta tekið inn í till. til þál. um það að nefndin sem ætti að vinna að því að taka upp veiðileyfagjald (Forseti hringir.) í sjávarútvegi ætti líka að kanna leiðir til að leggja á auðlindaskatt á aðrar auðlindir í eigu þjóðarinnar. Þessu er hins vegar sleppt úr hér og það sem meira er greinargerðin dregur úr og gefur til kynna að nú séu menn að hrökkva undan því þar segir:

,,Að mati flutningsmanna kemur til álita að nefndinni sem undirbúa á löggjöf um veiðileyfagjald verði einnig falið að kanna leiðir til að leggja auðlindagjald á aðrar auðlindir í eigu þjóðarinnar.``