Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 16:14:29 (354)

1997-10-09 16:14:29# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[16:14]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Þó svo hv. þm. sé virtur og hafi sterka stöðu í Sjálfstfl. var ég hér fyrst og fremst að tala um forustumenn flokksins í ríkisstjórn, ráðherrana og þingflokksformanninn, það eru talsmennirnir að öðru jöfnu. Hér er enginn ráðherra, ég veit að sjútvrh. er í Namibíu og er löglega afsakaður. Okkur tókst ekki á síðasta þingi að fá hæstv. forsrh. sem hafði skoðanir á málinu til að ræða um þessi mál. Ég segi að það sé lítilsvirðing fyrir okkur þingmenn að sé ekki skipst á skoðunum við okkur af hálfu forustu Sjálfstfl., þeirra manna sem bönnuðu umræðuna á landsfundi ykkar.

Það hefur skýrt komið fram að við lítum á þetta sem hluta af víðtækari skattlagningu eða álagningu auðlindagjalds. Vitaskuld hefur tillagan breyst smátt og smátt. Okkur fannst að það væri ekki skynsamlegt að fela nefndinni, sem fyrst og fremst skoðaði auðlindagjaldið, alla umsjón með víðtækri álagningu annarra auðlinda. Það yrði þá e.t.v. að koma önnur nefnd að því máli þannig að sá málflutningur hefur ekki nema síður sé veikst. Veiðileyfagjaldið er hluti af víðtækri álagningu auðlinda.