Veiðileyfagjald

Fimmtudaginn 09. október 1997, kl. 16:17:15 (356)

1997-10-09 16:17:15# 122. lþ. 6.2 fundur 5. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur

[16:17]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. gleymir því að í fyrri tillögu var lögð til alveg sérstök samsetning á þeirri nefnd sem átti að vinna að því máli og var þá skipuð sérstaklega fulltrúum úr sjávarútvegi. Þess vegna töldum við ekki heppilegt að útfæra það nákvæmar núna vegna þess að miklu fleiri aðilar yrði að koma að því verki en þeir sem tengjast sjávarútvegi. Í tillögunni segir, með leyfi forseta:

,,Flutningsmenn lýsa yfir þeim vilja sínum að unnið verði að löggjöf um auðlindanýtingu og gjaldtöku í því sambandi.`` Það er talað hér um að það komi til álita að nefndinni sem undirbúa á löggjöf um veiðileyfagjald verði einnig falið að kanna leiðir til að leggja auðlindagjald á aðrar auðlindir í eigu þjóðarinnar. Síðan segjum við: ,,Það er fullt samræmi í því að leggja auðlindagjald á aðrar sameiginlegar auðlindir hérlendis eins og vatnsorku og jarðvarma.`` Síðan er talað um takmörkuð verðmæti eins og sjónvarpsrásir.

Það er alveg ótvírætt að í þessu efni höfum við ekki breytt neitt um skoðun eða áherslu. Við höfum alltaf sagt nákvæmlega þetta og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson lagði fram frv. á síðasta þingi um hálendisnýtinguna þar sem þetta kom skýrt fram. Þarna höfðum við ekki breytt neitt um. Það er misskilningur af hálfu hv. þm.